Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 14:27:01 (5415)


[14:27]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Síðari spurningin hjá hv. þm. var sú hvers konar flokkur þessi Sjálfstfl. væri orðinn. Ég hélt að hv. þm. vissi það og gæti spurt marga þá sem væru honum nær hvers konar flokkur Sjálfstfl. væri orðinn. Sjálfstfl. er sá flokkur sem hann er í dag, var í gær og hefur verið og ætlar sér að vera. ( Gripið fram í: Þetta er mjög skýrt.) Þetta er mjög skýrt og það sýnir hve skýrt það er að hv. þm. Svavar Gestsson skilur það og ég vona að hann komi því til skila. ( SvG: Það er ekki þar með sagt.) ( Gripið fram í: Og það á stundinni.) Og það á stundinni.
    En þá snúum við okkur að þorskafla. Ef þorskafli glæðist á ný þá fær hvert skip meiri aflaheimildir. Það ætti að styrkja samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem gera út, þar á meðal á sunnanverðum Vestfjörðum, eins og ég veit að hv. þm. veit, og það ætti þá að styrkja þau fyrirtæki til þess að geta keypt sér aflaheimildir og jafnvel skip á nýjan leik. Þess vegna er það nú svo að ef þorskaflaheimildirnar aukast á Vestfjörðum þá hlýtur hagur fyrirtækja og fólks að batna og þar með samkeppnisstaða þeirra gagnvart öðrum fyrirtækjum. Þetta hélt ég að lægi í augum uppi fyrir mann sem er góður í reikningi.
    Varðandi sveitarfélögin þá er það alveg hárrétt, ríkisstjórnin valdi þá leið að rétta þeim fyrst og fremst hjálparhönd sem hafa sýnt í verki að þeir vilja sameinast. Í sumum byggðarlögum á Vestfjörðum háttar þannig til, og ég hugsa jafnvel í byggðarlögum sem hv. þm. þekkir best til, að þar hafi verið settir peningar t.d. til hafnargerðar fyrir hundruð millj. kr. Það er líka aðstoð sem hefur verið veitt af ríkisins hálfu, eins og ég veit að hv. þm. veit og það má ekki heldur vanmeta hana þegar talað er um fjárframlög frá ríki til sveitarfélaga á Vestfjörðum.