Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 15:40:07 (5426)



[15:40]
     Matthías Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir síðustu orð hv. síðsta ræðumanns því að ég hef ekki verið þeirrar skoðunar og aldrei greitt atkvæði með þeirri stjórnun sem hefur verið viðhöfð. Hins vegar reyndi ég lengi vel að hafa áhrif til hins betra í þeim efnum, en þau meginmarkmið sem þetta kerfi átti að sýna voru að flotinn mundi minnka stórlega og hægt væri að hafa betra eftirlit en flotinn hefur aukist, vélaraflið hefur aukist og nú eru komnir menn á stað sem vilja auka það enn meira og segja að það sé allt of lítið. Þannig eru nú skoðanir manna heldur á reiki eins og fyrri daginn.
    Ég vil líka vekja athygli á því að þetta frv. gerir ekki ráð fyrir neinum nýjum sérstæðum ráðstöfunum. Það er búið að taka þær svo tugum skipti á mörgum undanförnum árum og hafa þá verið taldar sjálfsagðar. Ég hef sem þingmaður Vestfirðinga tekið þátt í því að samþykkja byggingu álvers á Reykjanesi, byggingu járnblendiverksmiðju í Hvalfirði og staðið að því að styrkja og renna styrkari stoðum undir byggðarlög í öllum kjördæmum landsins að meira eða minna leyti. Ég hef litið á það sem skyldu mína sem þingmaður að taka þannig þátt í aðgerðum.
    Byggðastofnun sem slík er orðin lítil stofnun og hefur verið að minnka á undanförnum árum. Allt frá árinu 1978 hefur hún minnkað. Hún var langstærst, miðað við verðlag hvers árs og miðað við verðlag í árslok 1993, 1987 eða hafði þá um 1.209 millj. til ráðstöfunar á móti 185 millj. á þessu ári. Það sjá allir að þá var hægt að gera margvíslegar sérstæðar ráðstafanir fyrir ákveðin byggðarlög. Ég nefni t.d. byggðarlög á Austfjörðum, Stöðvarfjörð, Breiðdalsvík, Þórshöfn, ekki gekk nú lítið á þegar það litla kauptún keypti togara og allir ætluðu að rifna af vandlætingu.
    Það hefur verið staðið að fjölmörgum aðgerðum hingað og þangað um landið. Ég hef talið það vera skyldu mína. Ég fagna því þegar á heildina er litið að þetta frv. er komið fram. Byggðastofnun hafði forustu um það að vinna að undirbúningi frv. en hún hafði ekkert með það að segja eftir að ríkisstjórnin tók það inn á sitt borð og fulltrúar fjögurra ráðuneyta sömdu það ásamt einum embættismanni Byggðastofnunar. Það var ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Og eins og ég hef t.d. sagt fjmrh., þá tel ég að það þurfi að breyta verulega 2. gr. frv. í þá átt að Byggðastofnun sé heimilt að veita sjávarútvegsfyrirtækjum sem ætla að sameinast víkjandi lán.
    Ég tek dæmi. Fyrirtækið Frosti á Súðavík og Norðurtanginn á Ísafirði gerðu ekki skuldbindingu við Súgandafjörð um afla. Þeir keyptu hlutabréfin og fyrirtækið og reka það sjálfstætt og skaffa því hráefni. Ég sé enga ástæðu til annars en þessi fyrirtæki fái fyrirgreiðslu með víkjandi láni. En ég bið hv. þm. í guðanna bænum að halda ekki að þetta frv. sé flutt fyrir bankann því að það er ætlunin að bankarnir semji um lán sín til lengri tíma. Maður hefði ekki staðið í því að berja á því að einhverjar ráðstafanir væru gerðar ef það ætti að vera bara fyrir bankann, en þetta er auðvitað fyrst og fremst fyrir atvinnulífið á þessum stöðum.
    Vandi sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum liggur einkum í því að aflaheimildir í kjördæminu hafa dregist saman um 29% á síðustu tveimur árum eða frá 1. sept. 1991 til 1. des. 1993, en um 12--17% í öðrum kjördæmum. Skýringin á því er sú að stjórnvöld hafa talið nauðsynlegt að grípa til aukinna friðunaraðgerða til að koma í veg fyrir hugsanlegt hrun þorskstofnsins og til að byggja hann upp. Því hefur á tveimur árum orðið 46% samdráttur í þorskveiðiheimildum sem Vestfirðingar hafa byggt mest á. Sú aukning sem orðið hefur í öðrum tegundum nýtist Vestfirðingum verr. Þess ber að geta að stjórnvöld hafa að hluta mætt minnkun þorskveiðiheimilda með því að úthluta aflaheimildum Hagræðingarsjóðs einvörðungu til þeirra sem orðið hafa fyrir mestum samdrætti í aflaheimildum. Sé tekið tillit til þess, þá hefur samdrátturinn á Vestfjörðum verið 25% á síðustu tveimur árum en 10--15% í öðrum kjördæmum.
    Mér er alveg ljóst að ákveðnir staðir í mörgum kjördæmum í landinu eiga við svipaða erfiðleika að etja og ég tek alveg undir orð síðasta ræðumanns í þeim efnum að það þarf að taka á vandamálum atvinnulífs á utanverðu Snæfellsnesi. Ég tek líka undir það að það eru staðir austur á fjörðum sem hafa farið á mis við þá miklu uppbyggingu sem þar hefur orðið og það mikla happ sem Austfirðingar urðu fyrir á þessari vertíð miðað við loðnuveiðina. Þar nefni ég Bakkafjörð og Borgarfjörð eystri. Það eru líka erfiðleikar á Seyðisfirði þrátt fyrir að þeir hafi verið þátttakendur í loðnuveiðum. Það eru erfiðleikar líka á Suðurlandi sem við megum heldur ekki gleyma. Það eru erfiðleikar á ákveðnum stöðum við Eyjafjörð, Grímsey, við Húnaflóa, bæði að austan og vestanverðu, svo ég taki upp þessi dæmi.
    Mér heyrðist að fulltrúi Kvennalistans, sem talaði áðan, teldi að það þyrfti að auka fiskeldi í fjörðunum á Vestfjörðum. Við höfum aðallega fengið skammir fyrir það í Byggðastofnun og á fleiri stöðum að við höfum veitt allt of mikið fjármagn í fiskeldi. Og heill flokkur hefur flutt núna frv. til laga um að rannsaka öll lán og sá flokkur er Kvennalistinn. Og 1. flm., ef ég man rétt, er borgarstjóraefni stjórnarandstöðunnar og Alþfl. Þær eru ekki alveg á því að þetta hafi gengið allt fyrir sig með eðlilegum hætti og þær vilja láta rannsaka hvert einasta mál.
    Við skulum taka Byggðastofnun í þessu sambandi. Hún leggur hér fram reikning á hverju einasta ári þar sem tíundað er hvert einasta lán og hver einasti styrkur. Þetta er endurskoðað af löggiltum endurskoðendum, þetta er undirritað af þingkjörinni stjórn og þetta er endurskoðað af Ríkisendurskoðun. En í frv. leggja flutningsmenn til að Ríkisendurskoðun fái tvo menn af fimm til þess að endurskoða reikninga sem þeir eru búnir að endurskoða á hverju ári. Verður nú ekki að vera eitthvert samræmi í málflutningi? Hvað

er það sem hefur verið gert sem er svona nauðsynlegt að rannsaka og það sem Alþingi er búið að fjalla um á hverju einasta ári? Hvað skyldi kosta að láta rannsaka öll útlán bankanna og allra annarra sjóða? Það átti að svipta nafnleyndinni af á meðan nefndin rannsakaði en síðan átti nafnleyndin að koma á þannig að enginn átti að vita neitt nema þessi nefnd. Ég er viss um að þetta eru útgjöld upp á 150--200 millj. Það verður að vera samræmi, dömur mínar, í því sem þið eruð að tala um og veitir ekki af.
    Ég spyr hv. 6. þm. Vestf.: Voru það t.d. hræðileg afglöp af Byggðastofnun að veita lán til Kaupfélags Strandamanna á Norðurfirði, þó að það væri vitað að þetta væri tapað lán? Eigum við ekki allir að fara inn á Litla-Hraun sem stóðum að þessu? ( Gripið fram í: Ef það er pláss.) Er nokkurt pláss þar? (Gripið fram í.) Samkvæmt lögum um stofnunina verður hún að taka tillit til byggðamála. Ég vil í fullri vinsemd fara þess á leit við Kvennalistann að hann rökstyðji betur þetta mál. Því miður var ég ekki við þegar þetta frv. fór í gegn en það hefði verið ástæða til þess að tala ítarlega um það. ( ISG: Það er nú ekki rétt hjá þingmanninum.) Ég var ekki við, sagði ég. ( ISG: Það er ekki rétt.) Og það voru fleiri sem ekki voru við sem ætluðu að tala um þetta.
    Ég vil nefna annað í þessu frv. ríkisstjórnarinnar. 15 millj. kr. til þess að mæta nýjum verkefnum og skapa ný verkefni er afskaplega gott framlag, a.m.k. miðað við það sem verið hefur. Við Íslendingar höfðum einu sinni Fiskimálasjóð sem veitti til nýjunga í sjávarútvegi en hann fór líka út í lántökur og það var sjálfsagt að taka þær heimildir af. Síðan fór þetta yfir í Fiskveiðasjóð sem ekkert hefur látið í þessa hagræðingardeild. Ég fagna alveg sérstaklega þessu ákvæði í frv. ríkisstjórnarinnar og ég segi ekki að loksins þegar við sjáum og á að ákveða 15 millj.: Nei, þetta er allt of lítið. Ég segi bara að það er mjög gott að fá þessar 15 millj. í staðinn fyrir að fá ekki neitt. Þannig vil ég snúa málflutningnum.
    Ég tel að hér sé um að ræða aðgerð sem á fullan rétt á sér. Þessi byggðarlög vestra hafa orðið fyrir þyngsta áfallinu eins og áður hefur verið sagt í þeirri fiskveiðistjórnun sem verið hefur á undanförnum árum vegna þess hversu þorskurinn er hátt hlutfall í heildarafla Vestfirðinga. Ég skil ekki þann þingmann sem segir: Af hverju fær ekki fyrirtæki sem þarf ekki á neinni aðstoð að halda, skuldar lítið, af hverju fær það ekki verðlaun? Þetta sagði hv. 5. þm. Vestf. og nefndi sérstaklega hraðfrystihúsið í Hnífsdal. Ég efast um að sá gamli þar kærði sig um að taka á móti einhverjum verðlaunum fyrir það að skulda lítið og standa sig vel. Það sem verið er að gera hér er að reyna að halda áfram atvinnulífi á sem flestum stöðum til þess eins að fólkið flýi ekki unnvörpum frá þessu kjördæmi og til annarra staða sem bjóða upp á betra. Og það gerum við ekki með því að moka peningum í þá sem hafa nóga peninga fyrir og þurfa ekki á þeim að halda, heldur með því að rétta hina af. Það sem viðkemur sveitarfélögunum þá er fyrst og fremst verið að rétta af þau sveitarfélög sem hafa þurft að leggja mikla fjármuni fram til atvinnulífsins og hafa tapað þeim. Það eru aftur önnur og meðal þeirra stærsta sveitarfélagið á Vestfjörðum sem ekkert hefur þurft að leggja fram til atvinnulífsins. Þarna verður að draga skil á milli feigs og ófeigs.
    Þó að menn hafi misjafnar skoðanir og tilfinningar til þessarar ríkisstjórnar þá held ég að hún megi njóta sannmælis hvað þetta snertir. Það kemur vafalaust til með að þurfa að leita til hennar með fleiri atriði vegna þess hvernig fjármunum Byggðastofnunar er komið, vegna þess hvernig pólitík bankanna er rekin. Þeir eru skammaðir fyrir töp á útlánum. Það talar enginn um að það var gulltryggt kannski fyrir 10--12 árum að lána það hlutfall sem lánað var til hraðfrystihúsa en grundvöllur þessara eigna hefur hrunið vegna þess að sjávarútvegurinn hefur hrunið. Það hefur áhrif á þetta þjóðfélag, stjórnunaraðgerðir í sjávarútvegi og það verða alþingismenn a.m.k. að skilja og helst allir Íslendingar.