Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 15:57:34 (5427)


[15:57]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Vestf. vitnaði til þess að það væri ekki samræmi í því að hér væri verið að tala um það að fiskeldi gæti verið framtíðaratvinnugrein. Það er nú svo að fiskeldi er vaxandi atvinnugrein um allan heim og hefur verið sýnt fram á það með ýmsum tölulegum útreikningum að það muni fara vaxandi á næstu árum og það stefni í það að hlutur Íslendinga verði mjög lítill en að við höfum alla möguleika til þess að taka þátt í því.
    Hvað varðar það hvernig fór fyrir fiskeldinu á sínum tíma þá hygg ég að það hafi ekki eingöngu verið Kvennalistinn sem gagnrýndi þá fjárfestingu sem þar hefur ekki nýst í þeim mæli sem til var ætlast. Má þar sjálfsagt kenna um að mörgu leyti eðli Íslendinga sem er að fara mjög hratt af stað í allt sem á að gera og taka ekki nægilega mið af því að fara varlega við slíka nýsköpun. En ég vitnaði til Norðmanna sem eru farnir að hafa talsverðar tekjur af fiskeldi, þeir fóru einmitt varlega af stað en öfluðu sér þekkingar með árunum.
    Ég ætla ekki að úttala mig um lán til Kaupfélags Strandamanna, ég þekki það engan veginn. En hvað varðar að Kvennalistinn hafi lagt fram frv. til að skoða útlánatöp finnst mér einkennilegt að hv. formaður stjórnar Byggðastofnunar skuli tala nú þegar eins og þar sé eitthvað óeðlilegt á ferðinni. Ég geri alls ekki ráð fyrir að það sé neitt óeðlilegt við það sem Byggðastofnun hefur verið að gera á undanförnum árum en það má ábyggilega læra af því hvernig hefur verið farið með fjármuni, bæði Byggðastofnunar og annarra sjóða, á sl. árum sem vitnað er til. Við höfum dæmi fyrir okkur í ýmsum þingskjölum síðustu daga sem hafa sýnt fram á töp, bæði banka og sjóða.