Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 16:08:21 (5433)


[16:08]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Það er ástæða til að fagna því að þessar aðgerðir skuli vera komnar á dagskrá þingsins og eins og þær voru þegar forsrh. lýsti þeim í upphafi tel ég þær brýnar og bráðnauðsynlegar og kannski má segja þó fyrr hefði verið og það þrátt fyrir orðalag í frv. sem leita þarf skýringa á.
    Eins og fram kemur í greinargerð þá búa Vestfirðir við sérstöðu umfram önnur landsvæði vegna samdráttar í þorskveiðiheimildum, einhæfni í atvinnulífi og landfræðilegrar stöðu. Hlutur sjávarútvegs í atvinnustarfsemi á Vestfjörðum er þrefalt meiri en landsmeðaltal. Þjóðhagsstofnun hefur reiknað það út og það hefur komið fram í fréttum að tap Vestfirðinga vegna minnkandi þorskkvóta nemur 4 milljörðum á árunum 1988 til 1993 og enn bætist við þessa tölu í ár. Það hefur verið rætt um það að atvinnuleysi sé minna á Vestfjörðum heldur en annars staðar. Atvinnuleysi þar birtist í minni vinnu, minnkandi tekjum þegar dregur úr aflanum. Hins vegar er vægi sjávarútvegs svo mikið á Vestfjörðum að atvinnulíf hrynur þar í einu lagi við stöðvun fiskiflotans. Nánast öll atvinnustarfsemi, eins og kom fram hér að framan og þjónusta er tengd á einhvern hátt fiskveiðum og vinnslu.
    Hjá ríkisstjórninni virðist vera mikill ótti við að kalla þessar aðgerðir sértækar. Forsrh. hefur sitt á hvað í fréttatímum fjölmiðla nefnt þær svo eða borið það til baka. Það hafa verið gagnrýndar sértækar aðgerðir fyrri ríkisstjórna. Það hefur verið talað um sjóðasukk og það hefur verið talað um ráðdeildarleysi þegar fjármunir hafa verið veittir í atvinnulífið. Hvað hefur svo stefna núv. ríkisstjórnar í atvinnumálum kostað þjóðarbúið og hvað á hún eftir að kosta það?
    Hinar sértæku aðgerðir í atvinnumálum voru m.a. fólgnar í því að meta stöðu einstakra fyrirtækja, byggðarlaga og landsvæða, gera upp við sig hvað það kynni að kosta að leggja þar af atvinnu og síðan að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir atvinnuleysi, gjaldþrot og byggðaflótta. Þetta kostaði mikla peninga sem veita þurfti til þessara mála. Mörg þessara framlaga skiluðu sér í endurreisn fyrirtækja og í atvinnu fyrir þúsundir manna. Önnur dæmi og þau eru líka mörg, má finna þar sem ekki reyndist unnt að bjarga fyrirtækjum og þau lentu í þrotum. Það segir þó ekki að allt fjármagnið hafi glatast.
    Í frétt frá fjmrn. í júní sl. kemur fram að samdráttur og atvinnuleysi á árinu 1992 og áætlað á árinu 1993 eru talin kosta ríkissjóð um 10 milljarða kr. Miðað við það að atvinnuleysi jókst meira en þar var gert ráð fyrir má ætla að þetta séu enn hærri tölur og þá er ótalinn kostnaður banka og ýmissa sjóða við öll þau gjaldþrot sem átt hafa sér stað síðan. Því hlýt ég að spyrja: Hvor stefnan er betri, svonefndar sértækar aðgerðir sem skila þó atvinnu og hjálpa til þess að halda fyrirtækjum gangandi eða stefna atvinnuleysis sem kostar þjóðarbúið milljarða svo tugum skiptir og skilur eftir sig sviðna jörð, örbirgð og vonleysi?
    Þetta frv. felur í sér sértæka aðgerð og m.a. í sjávarútvegsmálum, það er rétt að taka það fram. Og

það finnst mér lofsverð stefnubreyting sem ríkisstjórnin ætti að viðurkenna og hefur reyndar fengið stuðning hjá stjórnarsinnum hér í dag og það er vel, en það er mikil spurning í mínum huga hvort þessi aðgerð kemur ekki of seint. Ef ekki næst fram stuðningur við auknar aflaheimildir til viðbótar henni eða nýjar upplýsingar leiða til aukningar afla en nú hafa vonir heldur glæðst um það við nýjustu upplýsingar í fréttum.
    Vestfirðingar geta ekki nýtt sér aukningu í loðnuveiðum. Þeim kemur ekki til góða aukinn síldarkvóti. Humar er ekki veiddur frá Vestfjörðum og steinbíturinn er ekki vís auðlind þann eina mánuð sem hann fæst þó að oft hafi hann bjargað miklu.
    Þá er rétt að minna á það að frumkvæði í rækjuveiðum kom frá Vestfjörðum á sínum tíma og það sama má segja um grálúðuveiðarnar sem fyrst voru stundaðar með línuveiðum á miklu dýpi og síðan með togveiðum. Vestfirðingar hafa ekki fengið að njóta þessa frumkvæðis því að þegar ísinn var brotinn og sýnt að þessar tegundir mátti veiða og nýta, þá var aflaheimildum í grálúðu og rækju dreift út, m.a. til þess að leysa vanda loðnuflotans þegar þar varð aflabrestur. Ekkert bendir til að þessu verði skilað þó að góðæri sé nú í loðnunni.
    Vestfirðingar hafa verið að hagræða hjá sér. Þeir hafa orðið að selja frá sér skip og kvóta. Ekki færri en sjö togarar hafa verið seldir frá Vestfjörðum á síðustu örfáum árum og menn eru sveittir við að hagræða og bæta vinnsluaðferðir. Ég vil nefna fyrirtæki eins og Fáfni hf. á Þingeyri sem dæmi um viðbrögð við minnkandi afla. Þeir hafa orðið að selja frá sér skip og þeir hafa orðið að breyta rekstri. Þeir hafa tekið upp mjög mikla samvinnu við fyrirtæki á Ísafirði. Þeir eru með þróunarvinnu í gangi hjá sér við fullvinnslu á úthafskarfa og það er brautryðjendastarf og þeir hafa aflað sér markaða fyrir þessar afurðir. Þeir hafa unnið neytendavöru úr smáþorski og fengið markað fyrir þær afurðir í Bretlandi og þeir hafa unnið lausfrysta bita úr Rússafiski.
    Þá er ég kominn að þeim annmarka sem ég tel að sníða þurfi af þessu frv. Þetta fyrirtæki sem hér var nefnt er fyrir fram dæmt til að verða af allri aðstoð, ekki vegna þess að þar hafi ekki verið vel að verki staðið heldur vegna staðsetningar sinnar og sérstöðu. Samvinna við önnur fyrirtæki eins og þeir hafa beitt dugir ekki heldur þarf sameining að eiga sér stað. Í 1. gr. frv. stendur, með leyfi forseta:
    ,,Á árinu 1994 er ríkissjóði heimilt að veita Byggðastofnun sérstakt framlag að fjárhæð allt að 300 millj. kr. til að standa straum af víkjandi lánum til sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum sem vilja sameinast og til að styðja nýjungar í atvinnulífi, sbr. 5. gr.``
    Í 2. gr. stendur: ,,Þar sem sveitarfélög verða sameinuð á Vestfjörðum er Byggðastofnun heimilt að veita sjávarútvegsfyrirtækjum, sem ætla að sameinast, víkjandi lán. Sama gildir um þau sjávarútvegsfyrirtæki á Vestfjörðum sem hafa sameinast á síðustu þremur árum.``
    Þarna er þrenns konar orðalag, þ.e. sem vilja sameinast, sem ætla að sameinast, sem hafa sameinast. Það hefur að vísu komið fram hjá hv. 1. þm. Vestf. vilji hans til breytinga á þessu og þar stæði þá, með leyfi forseta: ,,Er Byggðastofnun heimilt að veita sjávarútvegsfyrirtækjum sem ætla að sameinast víkjandi lán.`` En þó svo að þessi breyting yrði gerð, þá næði hún ekki þeim tilgangi að geta rétt hjálparhönd fyrirtækjum sem hafa sérstöðu eins og Fáfnir á Þingeyri, e.t.v. eins og fyrirtækin á Hólmavík og víðar, að þau hafa ekki ástæðu eða aðstæður til þess að sameinast. Hins vegar hafa þau sýnt vilja og sýnt í framkvæmd að þau hafa átt góða samvinnu við önnur fyrirtæki, þau hafa staðið vel að þróun sinna mála og því skyldi ekki vera ástæða til þess að styðja fyrirtæki með slíkt frumkvæði og með slíka sögu að baki?
    Og hvað merkir að vilja sameinast? Hvað merkir að ætla að sameinast? Hvað þarf sá vilji eða sú ætlan að vera sterk og við hvaða rök þarf hún að styðjast? Er alveg sama hvaða fyrirtæki sameinast? Það stendur hvergi, eða ég hef ekki séð það hér í frv. eða í greinargerð með frv., neitt um það hvernig fyrirtækið á að vera. Í fylgiskjali sem hér fylgir er að vísu talað um ,,stærri sjávarútvegsfyrirtæki``. Ég veit ekki almennilega hvað við er átt. Lítum enn á sama dæmið á Þingeyri. Möguleikar þar heima fyrir til að sameinast eru eingöngu að sameinast einhverjum trillukarlinum. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert, en ég sé ekki að það breyti neinu fyrir þetta stóra fyrirtæki þó að það taki inn einn eða fleiri menn með trillur því að þeir hafa hvort sem er fulla samvinnu við þessa menn. Þeir kaupa af þeim aflann og vinna hann. Ég sé ekki að það breytti neinu þó að þarna væri sameining í stað samvinnu. Er kannski nóg að Grandi kaupi hlutabréf í þessu fyrirtæki? Dugar það? Mér heyrðist það vera lofsvert þó að hérna sé verið að tala um sameiningu, vilja og ætlun og það að hafa sameinast, en síðan er talað um það sem lofsvert framtak að Grandi kaupir hlutabréf í öðru fyrirtæki. Kannski er þetta leiðin sem á að fara fyrir vestan að hlutafélögin kaupi hlutabréf hvert í öðru í stað sameiningar? Ég spyr.
    En mér finnst að þessir hlutir þurfi að vera skýrir og það sé vænlegt að tala um samvinnu í stað sameiningar og binda þetta ekki of þröngum böndum þannig að það hái framkvæmdinni. Sjávarútvegsfyrirtæki eru mörg stór og þau eru með umfangsmikinn rekstur og mörg atriði sem meta þarf ef á að sameina þau að fullu svo að ljóst sé hver staða þeirra er. Í slík verk má ekki ráðast í flaustri eins og hér virðist hvatt til. Fyrirtæki sameinast ekki fyrirvaralaust án undangenginna athugana, kannana og upplýsingastreymis þeirra á milli.
    Þá hefur gleymst vandi margra þessara fyrirtækja sem líta á sig sem forsjáraðila byggðarlaga. Þau geta ekki hagrætt afla skipa sinna eftir geðþótta til þess að fá hæsta verð hverju sinni heldur hafa þau líka haft atvinnusjónarmið heima fyrir í huga þó að það hafi haft í för með sér að ekki var hægt að selja hæstbjóðanda. Þetta er vert að hafa í huga og minnast.
    Þarna er heldur ekki hægt að reka markaðsstefnu í atvinnumálum. Fólk á öllum aldri hefur haft hjá þessum fyrirtækjum lífsafkomu sína jafnvel þó að hagkvæmt hefði verið að ráða aðeins frískasta fólkið og láta hitt sitja heima.
    Í frv. eru líka ákvæði um sameiningu sveitarfélaga. Ég tel ekkert athugavert við það að þau sveitarfélög sem sameinast og sjá sér hag í því fái aukna fyrirgreiðslu, einkum til þess að auðvelda þeim aðlögun að nýju umhverfi og nýju fyrirkomulagi. Hins vegar man ég ekki betur en því hafi verið lýst yfir í tillögu sveitarfélaganefndar og margendurtekið á fjölmörgum kynningarfundum um sameiningu sveitarfélaga að sameining yrði ekki knúin fram með valdboði eða nauðung. Þetta var margítrekað og margtekið fram og þessu held ég að menn hafi almennt trúað. Beitt yrði upplýsingum, ráðgjöf, beitt yrði kynningu á kostum sameiningar, en íbúarnir fengju að sjálfsögðu svo sem lög mæla fyrir um að ráða því hvort af sameiningu yrði. Ég vil taka það fram að ég er almennt hlynntur sameiningu og samvinnu sveitarfélaga en ég hef alltaf litið svo á að þetta væri leiðin sem ætti að fara, að beita kynningu, ráðgjöf og upplýsingum en ekki valdboði.
    Nú er vitað t.d. að Tálknfirðingar ganga til kosninga á ný um sameiningu við önnur sveitarfélög í Vestur-Barðastrandarsýslu eftir þrjár vikur eða svo. Tæpast er hægt að líta svo á að þeir geri það ekki undir ströngum skilyrðum, að ekki sé kveðið fastar að orði, jafnvel hótunum. Það vill nefnilega svo til að í Tálknafirði er fyrirtæki sem í áranna rás, allt frá stofnun þess 1946, hefur verið tekið sem fyrirmynd annarra fyrirtækja í sjávarútvegi á Vestfjörðum og það hefur ekki legið uppi á opinberum sjóðum með óeðlilegar beiðnir um fyrirgreiðslu eða bjargráð. Nú er þó svo komið að þetta fyrirtæki hefur orðið að selja frá sér togarann en bjargar sér með mikilli samvinnu við nágranna sína, í báðar áttir vel að merkja. Samkvæmt sameiningarákvæðum frv. eru þeir einnig útilokaðir frá stuðningi.
    Bolungarvík kaus að hafna samvinnu við Ísafjarðarsvæðið í kosningum í haust á þeim forsendum m.a. að þeir uppfylltu skilyrði um íbúafjölda til þess að vera sjálfstætt sveitarfélag. Það ber enn að sama brunni. Það má geta þess að Þingeyri sem hafnaði sameiningu við Ísafjarðarsvæðið í sömu kosningum er utan þeirra fjarlægðarmarka sem sett voru fram í tillögum umdæmanefndar 1992 auk þess sem jarðgöng eru forsenda sameiningar. En eftir sem áður og það þó jarðgöng komi, verða á milli 50 og 60 km milli Ísafjarðar og Þingeyrar. Það breytir ekki því.
    Hverjum á fyrirtæki á Hólmavík að sameinast? Og ef við förum aðeins norðar af því að hér var nefndur Árneshreppur áður, þar eru að vísu engin stór fyrirtæki í sjávarútvegi þar þannig að kannski er ekki um það að ræða. En það er þó verið að baslast við það að vinna sjávarafurðir íbúunum þar, þessum fáu íbúum til hagsbóta, og það gengur ekkert allt of vel. Ef þyrfti að rétta þeim hjálparhönd, þá væri það trúlega í smáum mæli, en þetta frv. sker algerlega á þeirra möguleika. Hverjum ættu þeir að sameinast? Það er ekki mjög auðvelt að sjá það fyrir sér.
    Að síðustu verð ég að fara nokkrum orðum um þær 15 millj. sem ætlaðar eru til að styðja við nýjungar í atvinnumálum á Vestfjörðum sem auka fjölbreytni atvinnulífs. Þetta er mjög lofsverður kafli og spurning í mínum huga hvort ekki væri rétt að hækka þessa tölu verulega þar sem hér er unnið að því að breikka undirstöðurnar og það er verið að fara nýjar leiðir sem kannski eru mjög vænlegar. Eins og kom fram áðan hafa menn litið til ferðaþjónustu sem stoðgreinar og það er grein á Vestfjörðum sem ég þekki mjög vel. Ég hef tekið þátt í þeirri uppbyggingu sem þó er að verða í ferðamálum á Vestfjörðum og ég er sannfærður um það að ferðaþjónusta á nokkra framtíð fyrir sér á Vestfjörðum en það er mjög langt í land að hún geti orðið marktækur atvinnuvegur þar og menn mega ekki ganga út frá þeirri forsendu á næstunni. Ég held að enginn vilji sjá Vestfirði sem eyðibyggð með ferðalanga sem einu lifandi verurnar þar á vegum einhverra ferðaþjónustuaðila. Ferðaþjónustan er og verður um næstu framtíð stoðgrein á Vestfjörðum en ekki það sem við getum byggt okkar afkomu fyrst og fremst á. En hún er mikilvæg stoðgrein. Við skulum ekki gleyma því. Sjávarútvegurinn er og verður okkar meginatvinnuvegur og þannig á það að vera. En hann getur verið fleira en þorskur og steinbítur. Meðal þess sem ég tel æskilegt að styðja við eru t.d. kúfiskveiðar og vinnsla sem verið er að vinna að á Flateyri. Það þarf að aðstoða þá ungu menn sem hafa verið að þreifa sig áfram í ígulkeravinnslu sem er mannfrek atvinnugrein og því hentug á samdráttartímum. Það er verið að vinna dýrafóður úr fiskúrgangi vestur í Bolungarvík sem þyrfti að styðja. Það mætti vafalaust aðstoða þörungavinnsluna á Reykhólum við markaðsmál og þróunarstörf. En það má geta þess að á Reykhólum hefur verið sameinað það sem hægt er að sameina. Það eru bara meira en þrjú ár síðan. Hvernig fer með slíkt svæði? Það er ekki hægt að sameina þar meira. Það er allt búið, heil sýsla. En það eru meira en þrjú ár síðan. Útilokar það slík svæði? Ég spyr.
    Síðan má ekki gleyma því að í Arnarfirði og í Húnaflóa eru auðug mið af kalkþörungum. Kalkþörungar voru rannsakaðir þarna á árunum 1963 og fram yfir 1970 og þar fór fram frumkönnun, en síðan hefur lítið verið gert og það vantar enn mikið á þekkingu til að nýta þessi mið. Kalkþörunga má nýta til áburðar og að hluta til jafnvel til síunar svipað og kísilgúr og margra annarra hluta vafalaust.
    Hér hefur aðeins verið rætt um fiskeldi og loðdýrarækt. Ég tek undir það sem hv. 1. þm. Vestf. sagði og var reyndar stutt af fleirum. Það hafa farið miklir fjármunir í þessar greinar. E.t.v. hefur verið farið allt of geyst. En það fávíslegasta væri að bregðast við því þannig að fella þá niður þá reynslu, þá þekkingu sem þegar hefur náðst svo að ég styð þær aðgerðir sem nú eru í gangi að nýta það sem nýtanlegt er

úr þessu tapi og snúa vörn í sókn með tímanum og það mun verða gert því að eins og kom fram hér áðan varð verðfall svo gífurlegt að það gat engan órað fyrir því og ekki bara í fiskeldi heldur líka í loðdýrarækt. Í loðdýrarækt eru farin að sjást batamerki og það hafa komið vísbendingar í fiskeldinu sem eru jákvæðar og gæti farið svo að það yrði framtíð fyrir þessu og er vert að minna á það að fiskeldi er orðið meira í heiminum. Hlutur fiskeldis er orðinn stærri heldur en vinnslu. Það bendir okkur aftur á það að fiskveiðar verða í framtíðinni veiðar á villibráð sem við þurfum þá að meta sem slíka og gera verðmætari í samræmi við það þegar meginhluti neyslu mannkyns verður úr eldinu.
    Síðan er það heillaráð, sem ég legg hér með til, að heimila hrefnuveiðar strax í sumar. Það væri stórt og gott innlegg í nýtingu auðlinda sem við höfum við dyrnar, m.a. á Vestfjörðum en fáum ekki að nýta.
    Virðulegi forseti. Um þetta mætti hafa miklu lengra mál. Ég lýsi því enn yfir að ég tel anda þessa frv. sýna lofsverða stefnubreytingu ríkisstjórnar og ég vona að það sé til marks um breyttar áherslur í atvinnumálum landsins alls og boði uppbyggingarstefnu í stað atvinnuleysis. Jafnframt vænti ég þess að í umfjöllun um frv. í nefnd verði tekið á ákvæðum um skilyrðislausa sameiningu og samvinna geti komið til greina á sama hátt en landfræðilegar aðstæður útiloki ekki einstök fyrirtæki eða sveitarfélög.