Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 17:26:06 (5441)


[17:26]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Þær aðgerðir sem þetta frv. gerir ráð fyrir eru tvíþættar. Í fyrsta lagi að stuðla að sameiningu fyrirtækja á Vestfjörðum og stuðla að sameiningu sveitarfélaga þar með stuðningi úr Jöfnunarsjóði. Þessar aðgerðir eru eins og fram hefur komið ætlaðar til að koma til móts við þann vanda Vestfirðinga sem stafar af minnkandi afla og skerðingu þorskafla.
    Ég dreg ekki úr því að þessar aðgerðir eru nauðsynlegar og veit að Vestfirðingar eru í miklum vanda vegna þess að eins og fram kemur í athugasemdum og skýringum með frv. að sjávarútvegur er svo stór þáttur í þeirra atvinnulífi. Ég vil undirstrika að það er ekki síður vegna þess hve sjávarútvegurinn er stór þáttur í atvinnulífi á Vestfjörðum sem þessi vandi er upp kominn heldur en hvað þorskur er mikill hluti í afla Vestfirðinga. Vestfirðingar lifa á sjávarútvegi og hafa stærri hluta síns atvinnulífs í honum en víðast hvar í öðrum landshlutum þannig að auðvitað eru þessar aðgerðir nauðsynlegar og ég ætla ekki að draga úr því. En eigi að síður hafa þær hlotið gagnrýni og hvernig að þessum málum er staðið.
    Það er náttúrlega fyrst og fremst vegna þess að menn rekur í rogastans þegar þessi ríkisstjórn sem fór af stað með það að það skyldu engar sértækar aðgerðir verða gerðar skuli nú taka upp sértækar aðgerðir gagnvart einum landshluta vegna niðurskurðar kvótans sem bitnar auðvitað á öllum landshlutum.
    Á Vestfjörðum hefur fólki fækkað. Það er vandamál sem þar er mjög alvarlegt og ef á að taka upp sértækar aðgerðir gagnvart Vestfjörðum þá eru það auðvitað aðgerðir í byggðamálum vegna fólksfækkunar. Ég held að það sé vafasamt að binda þessar aðgerðir, hnýta þær sjávarútveginum svona fast eins og raun ber vitni og beinlínis hættulegt og býður heim togstreitu milli landshluta sem hefur auðvitað bryddað á í sambandi við þetta mál þó að það hafi reyndar ekki orðið að stórdeilum. Ég vil undirstrika það í þessu sambandi að það eru algerlega tilhæfulausar ásakanir á þingmenn annarra kjördæma að þeir vilji rífa til sín eitthvert herfang í þessu. Það er einfaldlega krafa þingmanna landsbyggðarkjördæmanna yfirleitt og þingmanna alls landsins að staða sjávarútvegsins verði skoðuð, það verði gerð úttekt á stöðu sjávarútvegsins í heild. Það á ekki að útheimta neina togstreitu við Vestfirðinga og ég undirstrika það að ég tel ástæðu til þess að skoða þeirra mál sérstaklega vegna þess að sjávarútvegurinn er svo stór þáttur í þeirra atvinnulífi. Það vildi ég láta koma fram.
    Það er náttúrlega eindæma klúður ef svo má að orði komast hvernig að málum sjávarútvegsins hefur verið staðið í tíð þessarar ríkisstjórnar og það er mikill áfellisdómur yfir ríkisstjórninni að ekki skuli nást neitt samkomulag um fyrirkomulag eða rekstrargrundvöll í þessum stærsta atvinnuvegi landsmanna. Ríkisstjórnin byrjaði á því að setja niður nefnd til þess að endurskoða fiskveiðistefnuna. Sú nefnd var að störfum í tvö ár en niðurstaða af hennar starfi er ekki búin að ná í gegnum Alþingi enn þá. Þetta hefur auðvitað verið til stórtjóns fyrir sjávarútveginn þannig að atvinnugreinin býr við fullkomna óvissu um framtíðina. Og eins og fram hefur komið er ekkert samkomulag um hið mikilvæga mál hvernig á að standa að úreldingu í sjávarútveginum, hvort á að samþykkja löggjöfina um þróunarsjóð eða ekki. Þetta kemur niður á Vestfirðingum og þetta kemur niður á öðrum landshlutum einnig.
    Það er náttúrlega ekki vansalaust fyrir atvinnugrein sem skapar 75% af útflutningstekjunum eða þar um kring að málefni hennar skuli vera í fullkominni óvissu eftir þriggja ára valdatíð þessarar ríkisstjórnar og samkomulag um þau mál skuli vera eins langt undan og það var í upphafi ferils hennar. Það kemur fram að Byggðastofnun er ætlað að veita 15 millj. kr. til nýsköpunar og þróunarstarfs á Vestfjörðum samkvæmt 5. gr. frv., til þess að styðja við nýjungar í atvinnumálum á Vestfjörðum sem auka fjölbreytni atvinnulífsins. Ég hef ekki mikla trú á því að það verði miklu til leiðar komi með þessari upphæð. Sannleikurinn er sá að allt þetta stangast á við fortíðina. Það er gallinn í þessu máli. Það var byrjað á því og hæstv. forsrh., sá eini og sanni, það er verst að hann er ekki hér viðstaddur en hér er hans staðgengill, hæstv. fjmrh., hann byrjaði á því að koma í gegn aðgerðum sem skertu mjög hæfni Byggðastofnunar til þess að koma inn í atvinnulíf úti á landsbyggðinni og styrkja nýjungar í atvinnulífi. Byggðastofnun er bannað að taka beinan þátt í atvinnufyrirtækjum, t.d. með hlutafjárframlögum og hjálpa mönnum þannig yfir erfiða hjalla, þeim sem eru að brjótast í nýjungum. Það er dálítið iðrunarfullt hjá ríkisstjórninni að skenkja nú einum landshluta sem á í erfiðleikum 15 millj. svona til þess að klóra í bakkann en það kemur því miður ekki að nógu gagni.
    Ég hef tröllatrú á því að sjávarútvegurinn sé ekki kominn á endimörk og sjávarútvegurinn geti veitt mörg atvinnutækifæri ef honum eru sköpuð skilyrði til að sækja fram, ef honum er t.d. sköpuð skilyrði til meiri fullvinnslu afurða en nú er. Það er satt að segja alveg undravert miðað við allan þann samdrátt sem verið hefur í afla hvað útflutningsverðmæti sjávarafurða hefur þó haldist í gegnum tíðina og það sýnir bara hvað er mikill kraftur í þessari grein og hvað menn sækja mikið fram þrátt fyrir allt þannig að öflugur stuðningur við nýsköpun og þróun og meiri fullvinnslu í sjávarútvegi, ég held að það sé ekkert sem mundi skila eins miklum atvinnutækifærum ef rétt er á því haldið.
    Ég er alls ekki að vanþakka það eða gera lítið úr því þó að það sé veitt fé í opinberar framkvæmdir upp á milljarða. En mér finnst skjóta dálítið skökku við að það skuli gleymast svo fullkomlega þessi grein og þróunarstarfsemin í henni og það skuli vera svo miklu lægri upphæðir sem eru veittar til þessarar starfsemi.
    Ég hef komið að því áður að mér finnst kynning þessa máls vafasöm. Mér finnst að þetta eigi að kynnast sem aðgerðir í byggðamálum en það eigi að setja af stað úttekt á stöðu sjávarútvegsins á landsvísu, á stöðu sjávarútvegsfyrirtækja. Vafalaust hefði það komið í ljós við slíka úttekt að ástandið hefur verið slæmt á Vestfjörðum og e.t.v. verra en annars staðar og þá hefðu sjálfsagt Vestfirðir notið mests af þeim stuðningi sem í kjölfar slíkrar úttektar hefði komið. En það er bara miklu víðar sem þörf er á að koma inn í sjávarútveginn með aðstoð sem er eitthvað í líkingu við það að veita víkjandi lán hvort sem það er bundið skilyrðum um sameiningu fyrirtækja eða ekki. Mér finnst líka komið dálítið aftan að fólki sem var að kjósa í sameiningarkosningum 20. nóv. ef það verður samþykkt á Alþingi núna að ef sveitarfélög og fyrirtæki sameinast og fyrirtæki sem sameinast jafnframt sameiningu sveitarfélaga fái víkjandi lán til þess að bæta sína stöðu. Það hefði áreiðanlega getað breytt stöðunni eitthvað í þessum sameiningarkosningum ef fólk hefði séð fram á það að um leið og það sameinaðist væri það að tryggja stöðu sjávarútvegsins í sínum byggðarlögum. Þó að þessar aðgerðir séu nauðsynlegar, ég mæli ekki gegn þeim, ég mun stuðla að því að þessar aðgerðir nái fram að ganga til stuðnings Vestfjörðum, þá vil ég undirstrika að það er víðar aðgerða þörf og mér finnst hafa verið farið með eindæma klaufaskap í þetta mál allt saman og það er alveg í samræmi við frammistöðu þessarar ríkisstjórnar í sjávarútvegsmálum almennt. Sú frammistaða er þyngsti áfellisdómurinn yfir þessari ríkisstjórn. Þó að hér hafi verið rætt um landbúnaðarmál löngum stundum og farsinn hafi verið mikill þar þá er kannski frammistaðan í sjávarútvegsmálunum enn þá alvarlegri þegar á allt er litið. Af því að það sést ekki fyrir endann á því máli, það er ekkert samkomulag enn þá um málið og það er ekki sjáanlegt að það sé neitt samkomulag milli stjórnarflokkanna um framtíð sjávarútvegsins á Íslandi og hvað þeir ætla að leggja til og ágreiningurinn hefur magnast eftir því sem það hefur dregist meira að ganga frá þessu máli.
    Ég vil að lokum undirstrika það sem ég hef sagt áður að það er þörf á úttekt á stöðu sjávarútvegsins á landinu öllu. Ég segi það t.d. varðandi stöðu sjávarútvegsmála á Austurlandi, þá er það vissulega rétt að Austurland hefur notið mjög góðrar loðnuvertíðar. Sú vertíð var hvalreki fyrir mörg fyrirtæki á Austurlandi og það viðurkenni ég fúslega. En hins vegar eru bara alls ekki allir sem njóta þeirrar vertíðar. Það eru byggðarlög þar sem verða út undan í því þó að fjölmörg frystihús hafi haft góða loðnufrystingu þá vil ég benda á að á Austurlandi hafa verið ýmis áföll í sjávarútveginum, t.d. varðandi síldarsöltun á undanförnum árum. Ég vildi því láta það koma fram í þessari umræðu án þess að ég vilji að nokkru leyti fara í neinn samjöfnuð milli Austurlands og Vestfirðinga í þessu máli að það er brýn nauðsyn á því að líta á málefni landsins alls hvað sjávarútveginn snertir.
    Það er auðvitað brýn nauðsyn á því einnig að efla Byggðastofnun, efla hana á ný til átaka í stað þess að draga úr mætti hennar. Hér er lögð fram till. til þál. um stefnumótandi byggðaáætlun til 1997. Þar stendur:
    ,,Atvinnulífinu í landinu verði búin þau skilyrði að fyrirtækin geti skilað arði.`` Þetta er mergurinn málsins og þetta er tillaga sem ríkisstjórnin leggur fram. ( StG: Það þyrfti kannski ekki að segja mikið meira en þetta.) Það þyrfti ekki að segja mikið meira en þetta, rétt, hv. þm. Og hér segir:
    ,,Byggðastofnun hafi frumkvæði að því að samræma nýtingu fjárveitinga úr ríkissjóði til atvinnumála á landsbyggðinni. Byggðastofnun styrki fyrirtæki á landsbyggðinni til að bæta og efla vöruþróun, markaðsmál, hæfni starfsmanna og nýsköpun, samstarf fyrirtækja við önnur fyrirtæki og rannsókna- og menntastofnanir verði styrktar. Áfram verði stutt við verkefni sem efla framtak kvenna í atvinnumálum.``
    Þetta eru fögur fyrirheit og ég vil ráðleggja hæstv. fjmrh. sem gegnir nú störfum forsrh. að koma því til sinna samstarfsmanna að vinna nú mjög kröftuglega í þessum anda, bæði fyrir Vestfirði og aðra landshluta.