Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 17:48:04 (5443)


[17:48]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg nú að hæstv. sjútvrh. hafi ekki hlustað á ræðu mína eða misskilið hana vegna þess að ég minnist þess ekki að hafa sagt það að ríkisstjórnin hefði engar almennar aðgerðir gert í þágu sjávarútvegsins. Ég ásakaði ríkisstjórnina fyrir að vera með skipulag sjávarútvegsins allt í óvissu og eins langt frá því að nást samkomulag um þau mál og var í upphafi. Ég ásakaði hana fyrir það. Og ég ræddi um að það þyrfti að gera heildarúttekt á afkomu sjávarútvegsfyrirtækja. Það er sem betur fer þannig og ég sagði það reyndar að það væri furðulegt hvað sjávarútvegurinn hefði sótt fram miðað við aðstæður og miðað við það að vita ekkert við hvaða aðstæður þeir eiga að vinna í framtíðinni. Ég veit ekki betur en annar stjórnarflokkurinn hafi það leynt og ljóst á stefnuskrá sinni að leggja nýja skatta á sjávarútveginn. ( StG: Annar? Báðir.) Eða báðir. Það er ekkert ljóst um það. Það var það sem ég var að tala um en ekki hvort gengið hefði verið fellt. Mér er alveg fullkunnugt um það að gengið var fellt og sem betur fer hefur verið gert sitt af hverju sem hefur komið sjávarútveginum til góða. Það er bara hæstv. sjútvrh. sem kýs að snúa út úr þessu vegna þess að sjávarútvegurinn er í óvissu um þau skilyrði sem hann á að búa við í framtíðinni.