Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 17:53:51 (5446)


[17:53]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þetta frv. sem hér er til umræðu er fyrir margra hluta sakir nokkuð athyglisvert eða óvenjulegt er nú kannski réttara að orða það. Það er bæði fremur sjáldgæft að með þessum hætti sé byggðamálum eða atvinnumálum sinnt í þannig hólfum að tekið sé fyrir eitt sérstakt landsvæði og í öðru lagi er það náttúrlega mjög athyglisvert í ljósi þeirrar stefnu sem þessi hæstv. ríkisstjórn hefur talið sig hafa í þessum efnum fram að þessu. Nú er það að vísu svo að vígin falla hvert á fætur öðru hjá hæstv. ríkisstjórn og það sem helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann, var einu sinni sagt og mætti víst heimfæra upp á núv. hæstv. ríkisstjórn því að um fátt var meira talað í árdaga ríkisstjórnartíðar Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh., en það að tími hinna sértæku aðgerða væri liðinn og svona sjóðasukk og sértækar aðgerðir væri oj bjakk frá tíð fyrri vondra ríkisstjórna og yrði ekki endurtekið. Nú skyldi brotið í blað og lögmálum frjálshyggjunnar og hinnar hörðu samkeppni beitt og fylgt og helst yrði þá látið skína í einhverjar sértækar ráðstafanir sem tengdust byggðamálum eða félagslegum aðstæðum fólks á því forminu að e.t.v. yrði slett peningum í eitt og eitt byggðarlag til þess að hjálpa fólki til að flytja þaðan burtu. En eins og kunnugt er geystist hæstv. forsrh. fram undir merkjum slíkrar stefnu á fyrstu mánuðum valdaferils síns.
    Það er auðvitað alveg ljóst að með þessu frv. eru stóryrði hæstv. forsrh. í þessu efni dauð og ómerk. Í raun og veru sömuleiðis allur kórsöngurinn um hinar spilltu og vondu ráðstafanir fyrri ríkisstjórnar. Það er athyglisvert að rifja það upp og minnast þess að hæstv. forsrh. sem er illa fjarri góðu gamni á knattspyrnuferðalagi í Japan eins og kunnugt er . . .   ( StG: Veistu hvernig gengur?) Vitum við nú ekki hvernig gengur nema honum virðist hafa tekist þokkalega vel að verja markið í gær því að þeir fengu ekki á sig nema eitt mark, Íslendingar. Að öðru leyti er það auðvitað merkilegt að hæstv. forsrh. gekk fram fyrir skjöldu í því á fyrstu mánuðum valdaferils síns að gagnrýna svo ég segi nú ekki hreyta fúkyrðum í forvera sinn og aðra þá sem komið höfðu að stjórn landsins á undanförnum árum og mér liggur við að segja áratugum, alveg sérstaklega t.d. fyrir það að hafa beitt sértækum ráðstöfunum. Sjálfstfl. réðist mjög harkalega á fyrri ríkisstjórn fyrir sértækar aðgerðir í atvinnumálum haustið 1988 og árið 1989. Hver var gagnrýnin á þær aðgerðir sem gripið var til til að bjarga atvinnulífinu frá algeru hruni sem stefndi í eftir frammistöðu Sjálfstfl. í ríkisstjórn um rúmlega fimm ára skeið? Eins og kunnugt er hafði Sjálfstfl. verið í ríkisstjórn á Íslandi frá 1983 til haustsins 1988 þegar atvinnulífið var að hrynja og það sprakk heil ríkisstjórn á því verkefni að ná saman um ráðstafanir gagnvart yfirvofandi hruni atvinnulífsins. Sú stjórn sem við tók fékk það erfiða hlutskipti að reisa þetta úr rústunum og greip m.a. til mjög víðtækra ráðstafana í því sambandi og kom hjólum atvinnulífsins í gang. Það skilaði þeim árangri að strax haustið 1989 sáust í fyrsta skipti um langt árabil jákvæðar afkomutölur í sjávarútvegi og í hönd fór besta ár sem íslenskur sjávarútvegur og útflutningsgreinar yfirleitt hafa um langt árabil séð framan í, þ.e. árið 1990. Gagnrýni sjálfstæðismanna á þessar ráðstafanir var sérstaklega sú að það væri óþolandi að þær væru sértækar í þeim skilningi að þær tækju aðeins til útflutningsatvinnuveganna. En eins og kunnugt er náðu ráðstafanirnar til fleiri greina en sjávarútvegs. T.d. fengu fyrirtæki í öðrum útflutningsgreinum fyrirgreiðslu þó í minna mæli væri, en þess voru þó dæmi bæði í iðnaði, fiskeldi og fleiri greinum.
    En það er þetta, sagði Sjálfstfl., að aðgerðirnar eru sértækar og hvers á iðnaðurinn að gjalda, t.d. samkeppnisiðnaðurinn, spurði Sjálfstfl. árið 1989? En hvað er borið á borð fyrir okkur hér nú? Það eru sértækar aðgerðir, ekki einungis í þeim skilningi að þær taki aðeins til útflutningsgreina, nei. Þær taka bara til sjávarútvegsins og þær eru sértækari en það því að þær taka bara til sjávarútvegsins á Vestfjörðum. ( StG: Ertu viss um það?) Og þær eru sértækari en það því að þær taka bara til sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum í sveitarfélögum sem ætla að sameinast. Sértækara verður það nú varla, hæstv. fjmrh. Þetta kalla ég að vera sértækur með stórum staf. Og hvað með ræðuhöldin frá árunum 1988--1989 um að það væri óþolandi að stjórnvöld væru að grípa til sértækra ráðstafana og mismuna mönnum í ljósi þess sem hér er fram borið? Auðvitað er þetta með ólíkindum í sögulegu samhengi en þetta er bara eftir öðru, þessi ríkisstjórn er sem kunnugt er í raun og veru dáin fullkomnum heiladauða og lifir sjálfri sér frá degi til dags. Hún étur hvert loforðið, hver stóryrðin á fætur öðrum ofan í sig ( JÁ: Það er nú til bóta.) og er auðvitað til bóta, það er út af fyrir sig rétt.
    Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að gera lítið úr vanda Vestfjarða. Hann er mikill, hann er ærinn og kemur þar margt til, m.a. óvenju erfiðar aðstæður, einhæft atvinnulíf, það að Vestfirðir eru mjög háðir bolfiskveiðunum og sérstaklega þorskinum og hafa þess vegna fundið mjög fyrir þeim harkalega samdrætti sem orðið hefur í veiðunum þar. Fjölmargar aðrar ástæður mætti nefna, svo sem einangrun og erfiðar samgöngur þó að það standi vissulega til bóta á ákveðnum svæðum eins og kunnugt er. Ég er þess vegna ekki að gerast talsmaður þess að ekki beri að líta á vanda Vestfjarða og reyna að leysa úr honum. Það er tvímælalaust að mínu mati skynsamlegt að reyna það sem hægt er til þess að forða hruni og byggðaröskun þar sem slíkt blasir við, m.a. til að varðveita þá miklu fjárfestingu sem liggur bundin í tækjum og mannvirkjum og uppbyggingu í öllum infrastrúktúrnum á slíkum svæðum og afstýra þeim útgjöldum sem stórfelldir búferlaflutningar fólks í landinu kosta svo að ekki sé nú minnst á hinar mannlegu og félagslegu hliðar málsins sem ég tel að eigi auðvitað ekki að vanmeta eða horfa fram hjá í þessum efnum. En það verður hins vegar að taka þannig á þessum málum að það sé einhver samfella í stjórnsýslunni, að augljósar jafnræðisreglur þegnanna í landinu séu ekki brotnar, en það yrðu þær ef staðið yrði að þessum málum með þessum hætti. Það þarf ekki að fara út fyrir Vestfirði. Ég spyr: Hvers eiga fyrirtæki að gjalda sem eru þannig staðsett í sveitarfélögum á Vestfjörðum þó þau séu ekki í öðrum kjördæmum að þar kemur ekki til sameiningar sveitarfélaga nú eða á allra næstu árum? Hún er kannski ekki beinlínis neitt skynsamleg eða fýsileg vegna landfræðilegra aðstæðna eða annarra aðstæðna. Er það réttlætanlegt að mismuna þá þeim fyrirtækjum þannig? Er það lýðræðislegt að pína menn þá saman í sveitarfélög gegn vilja sínum? Hvað með kosningarréttinn? Til hvers var fólkið í landinu að greiða atkvæði um það hvort það vildi sameiningu í einstökum tilvikum ef stjórnvöld ætla með þvingunaraðgerðum að pína þá slíkt fram? Og ef við horfum burt frá Vestfjörðum þá er auðvitað alveg ljóst að það eru fyrirtæki og byggðarlög í öðrum landshlutum sem eru nákvæmlega jafnilla sett og einstök byggðarlög á Vestfjörðum. Ég þekki úr mínu kjördæmi, og skammast mín ekki fyrir að sækja dæmin þangað, einstök byggðarlög sem eru nákvæmlega jafnháð þorskveiðum eins og Vestfirðirnir eru að meðaltali og eiga í miklum erfiðleikum þar sem fyrirtæki eru jafnvel í greiðslustöðvun eða eru að leita nauðarsamninga. Þau eru mjög háð þorskveiðum og búa að öllu leyti við sambærilega erfiðleika og við erum að tala um og ræða um gagnvart Vestfjörðum. Ég spyr: Hvers eiga þau að gjalda, þau byggðarlög og sveitarfélög að vera þá ekki á Vestfjörðum? Þetta er auðvitað þannig, hæstv. forseti, að þetta mál er þannig fram borið af hæstv. ríkisstjórn að það er ekki frambærilegt. Það stenst ekki lágmarkskröfu um vandaðan málatilbúning. Ég held að það sé alveg borin von að þessi framganga stjórnvalda standist jafnræðisreglur. Ég held að það sé alveg borin von að stjórnvöld geti borið málin fram með þessum hætti auk þess sem málið er stórkostlega gallað tæknilega. Það er auðvitað alveg augljóst mál þegar bornar eru saman og lesnar 1., 2., 3. og 4. gr. frv. og svo bornar saman við athugasemdirnar um þær sömu greinar í greinargerð, þá stangast þar eitt á annars horn eins og mér skilst t.d. að hv. 3. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds, hafi sýnt mjög ágætlega fram á í ræðu áðan. Það er talað um á einum stað að fyrirtæki vilji sameinast eða sveitarfélög, á öðrum stað að þau verði að sameinast, í þriðja tilvikinu að þau ætli að sameinast eða í fjórða tilvikinu að þau hafi sameinast. Hvað á þessi grautur að þýða? Hvers konar vinnubrögð eru þetta, hæstv. starfandi forsrh.? Frv. sem slíkt er í óboðlegum og ótækum búningi. Það verður a.m.k. að laga þetta til og ég held að það sé alveg augljóst mál að þeirrar þingnefndar sem fær þetta til umfjöllunar bíður mikið starf. Ég lýsi því yfir fyrir mitt leyti að komi það til minna kasta þá vil ég vinna þá vinnu með jákvæðu hugarfari gagnvart því að tekið verði á þessum erfiðleikum. Það verður að gera það á þann hátt að það standist lágmarkskröfur um vandaða stjórnsýslu og framgöngu stjórnvalda, m.a. hvað jafnræði þegnanna, fyrirtækjanna og einstaklinganna í landinu snertir.
    Ég tek það skýrt fram að ég tel út af fyrir sig að ráðstafanir ríkisstjórnar á árunum 1988--1989 hafi mátt gagnrýna eins og allar aðrar aðgerðir af þessu tagi þar sem um einhverja mismunun frá almennum leikreglum samkeppni og atvinnulífs er að ræða. Auðvitað eru öll ígrip stjórnvalda af þessu tagi erfið og vandasöm en menn hafa leiðst út í slíkt og menn munu þurfa að grípa til slíks vegna þess að þegar á hólminn er komið þá horfa menn sem betur fer ekki aðgerðarlausir á það að atvinnulíf í einu landi hrynji í rúst. Jafnvel frjálshyggjumennirnir, þeir sem eru í stystu buxunum, eru að brjóta odd af oflæti sínu nú og það er vel að raunveruleikinn er þá að lokum yfirsterkari kennisetningunum og menn fallast á það að svona sé ekki hægt að horfa upp á hlutina ganga fyrir sig.
    En það er annað sem verður auðvitað að horfa á í sambandi við erfiðleika atvinnulífsins á Vestfjörðum og í sjávarútveginum hringinn í kringum landið og það eru sambærilegir erfiðleikar annarra atvinnugreina og annarra byggðarlaga af öðrum orsökum en þeim að þorskafli hafi dregist mikið saman. Og ég get ekki annað hér við þessar aðstæður en minnt á það að Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið og Akureyri þá sérstaklega er það byggðarlag landsins sem lengst og mest hefur glímt við erfiðleika í atvinnumálum. Þar hefur atvinnuleysið verið hæst að hlutfalli, nánast undantekningarlaust undanfarin nokkur ár, á sér lengri sögu þar og djúptækari heldur en því miður eða sem betur fer má kannski segja í öðrum byggðarlögum landsins. Einstök svæði eins og Suðurnes hafa tímabundið komist upp í sama hlutfall og Akureyri en þegar við tökum meðaltal undanfarandi ára og yfirstandandi ástand þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að það byggðarlag landsins hefur orðið að mæta langmestum erfiðleikum. Viðkomandi sveitarfélag, Akureyrarkaupstaður, hefur bundið sér gífurlegar byrðar til þess að berjast gegn þessum atvinnuerfiðleikum. Akureyrarbær hefur meira og minna borið hitann og þungann af því að endurreisa heilar iðngreinar í landinu eins og ullar- og skinnaiðnaðinn, ýmist með litlum eða engum stuðningi stjórnvalda og það verður auðvitað að spyrja sig þeirrar samviskuspurningar hér: Gengur það gagnvart aðstæðum af því tagi að fara fram með ráðstafanir af þessum toga nema það sé með einhverjum almennum reglum á grundvelli sanngirnis- og jafnræðissjónarmiða tryggt að menn sitji sæmilega við sama borð? Ég spyr mig að því. Á þá Akureyri t.d. að líða fyrir það að hún skuli ekki sameinast einhverjum öðrum? Það hefur ekki skort vilja manna þar heldur íbúanna í nágrannasveitarfélögum sem hafa talið sínum hag betur borgið í sjálfstæðum sveitarfélögum. Þetta eru allt erfiðar spurningar sem við verðum að bera upp og svara áður en við lokum málum með þeim hætti sem hér er lagt til.
    Ég held að þessi skilyrðing ráðstafananna sem hér er lögð upp gangi ekki, hún geti ekki gengið. Það sé auðvitað alveg augljóst mál að í fyrsta lagi verður að taka út þessa þvingunarskilyrðingu gagnvart sameiningu sveitarfélaga burt séð frá aðstæðum. Er það eitthvert lýðræði ef kaupstaður eins og Bolungarvík hefur í atkvæðagreiðslu fellt það að sameinast öðrum, vill vera sjálfstæður, að hann gjaldi þess þá að hafa nýlega í kosningum með lýðræðislegum hætti tekið ákvörðun um sína framtíð og sé úr myndinni varðandi ráðstafanir af þessu tagi? Það gengur ekki. Það er nauðgun á lýðræðinu. Þá hefðu menn betur sleppt þessum kosningum og því að vera yfirleitt að hlusta á vilja fólksins í landinu.
    Eins er það að ég held að það geti ekki gengið annað en þessar ráðstafanir verði í reynd almennar gagnvart sambærilegum erfiðleikum annars staðar í landinu. Vissulega eru byggðaaðgerðir í eðli sínu kannski á ýmsan hátt sértækar nema þær taki ævinlega til landsins alls og þá er spurning: Eru það einhverjar byggðaaðgerðir? Þá er svarið væntanlega nei. Það eru þá almennar ráðstafanir í atvinnumálum eða öðru slíku. En þær geta varla orðið sértækari í þeim skilningi að þær taki á tilteknum erfiðleikum á einu svæði en ekki annars staðar ef þeir eru sambærilegir. Ég spyr mig bara að því: Gengur það yfirleitt upp að setja málin þannig fram? Ég held ekki og mér skilst meira að segja að hæstv. ríkisstjórn hafi sjálf áttað sig á þessu þegar hún var að afgreiða málið og óskaði eftir því að Byggðastofnun gerði úttekt á því hvort það fyndust sambærilegar aðstæður í öðrum byggðarlögum heldur en á Vestfjörðum, eins og hér eru til umfjöllunar.
    Þetta held ég að sé óhjákvæmilegt að hv. nefnd sem fær frv. til umfjöllunar, hver sem það nú verður, taki til skoðunar og þá eftir atvikum breyti, eigi að geta tekist einhver samstaða um það að ganga frá þessum málum með þessum hætti, sem ég tek fram og ítreka og undirstrika að ég er auðvitað nú sem endranær fylgjandi að sé reynt, skárra væri það nú.
    Að lokum, hæstv. forseti, aftur örfá orð um hæstv. ríkisstjórn. Auðvitað er það tímanna tákn að hæstv. fjmrh. skuli þurfa að hlaupa hér í skarðið fyrir forsrh., sem hefur ekki annað þarfara að gera en að þvælast um í Japan á eftir einhverju fótboltaliði á meðan aðstæður eru eins og þær eru í íslenskum stjórnmálum um þessar mundir. Hefði einhver haldið að hans biðu nú nokkur verkefni við að halda liðinu saman eins og það hefur verið undanfarið. ( Gripið fram í: Fótboltaliðinu?) Á ég þá ekki við fótboltaliðinu heldur ríkisstjórninni. Það er svipaður fjöldi í ríkisstjórn og í fótboltaliði eins og kunnugt er og e.t.v. er hæstv. forsrh. að læra af þjálfara landsliðsins hvernig halda eigi 11 manna hópi saman, a.m.k. inni á vellinum. Manni skilst að það veiti ekki af, þeir hafa ekki talað mikið saman ráðherrarnir undanfarna daga og búvörudeilan og utanfarir þeirra án samráðs hver við annan benda ekki til þess að það sé orðið mikið eftir í þessari ríkisstjórn. Þeim þykir e.t.v. þægilegast að tala saman með faxtækinu milli Japans og Íslands, eins og þeir munu hafa gert og þurftu þó ekki að vera utan lands báðir. Því mér skilst að það hafi verið þannig komið í búvörudeilunni að þeir hafi orðið að nota faxtækin þótt þeir væru hvor í sínu herberginu í Borgartúninu, til að skiptast á skoðunum, því ekki gátu þeir horft framan í ásjónu hvors annars, hæstv. ráðherrar utanríkis og forsætis.
    Auðvitað er ekkert gamanmál hvernig komið er fyrir þessari ríkisstjórn við þær aðstæður sem nú er við að glíma í landinu. Það eru örlagatímar uppi á ýmsan hátt í fleiri málum heldur en atvinnumálum Vestfirðinga og erfiðleikum þeirra gagnvart sjávarútvegi. Það eru örlagatímar að ganga yfir í utanríkismálum þessarar þjóðar og á ýmsum fleiri sviðum. Og það er auðvitað alveg hroðalegt að sitja uppi með ríkisstjórn af þessu tagi, sem er óstarfhæf, sem er ónýt, sem kemur hlutunum ekki frá sér fyrr en þá seint og illa og það í óbrúklegu formi. Hefur sá hæstv. ráðherra sem mælir fyrir svona pappír engan móral yfir að bera svona á borð Alþingis? Gjörsamlega ótækt frv., gjörsamlega ótækt. Ja, lítill er metnaðurinn orðinn, það verð ég að segja. Plagg sem hér er auðvitað tætt niður og tekið í nefið af hverjum þingmanninum á fætur öðrum, enda tilefni til.
    Það er mikið alvörumál, hæstv. forseti, að þessi ríkisstjórn er óstarfhæf. Við sem erum eitthvað að hugsa um eða sinna sjávarútvegsmálum og sitjum í þeirri nefnd þingsins verðum kannski ekki síst vör við þetta. Það er alveg ljóst að í þeim efnum er allt afvelta, fullkomlega afvelta, gjörsamlega afvelta. Þróunarsjóðurinn er munaðarlaus. Það er alger óvissa uppi um það nú tveimur árum eftir að endurskoðun laganna um stjórn fiskveiða átti að ljúka hvort hún nær nokkurn tíma landi. Svona getur þetta auðvitað ekki gengið. Alþingi verður þá að taka í taumana. Auðvitað væri nærtækast og eðlilegast og nauðsynlegast að losna við ríkisstjórnina, en á meðan hún hangir verður að reyna að vinna málin með öðrum hætti og þá eftir atvikum í þingnefndum og að því er ég tilbúinn að stuðla.