Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 18:14:18 (5447)


[18:14]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. fyrir það jákvæða hugarfar sem hann lýsti hjá sjálfum sér. Ég veit að það kemur að miklu gagni í nefndarstarfinu, en hv. þm. er í þeirri hv. nefnd sem tekur málið að sér.
    Í öðru lagi vil ég benda hv. þm. á það að engin ríkisstjórn hygg ég fyrr eða síðar hefur beitt jafnmikið almennum aðgerðum eins og sú sem nú situr. Ég vil benda á nokkur atriði.
    Í fyrsta lagi, raungengið. Það er vegna almennra aðgerða. Nú er samkeppnisstaðan betri en hún hefur verið oftast áður.
    Í öðru lagi, lækkandi vextir vegna almennra aðgerða.
    Í þriðja lagi hafa skattar af fyrirtækjunum lækkað. Það eru almennar aðgerðir.

    Í fjórða lagi er viðskiptajöfnuðurinn núna hagstæður, sem þýðir að við erum í raun að greiða niður skuldir erlendis og verðbólgan hefur aldrei verið jafnlítil vegna almennra aðgerða.
    Það er hins vegar rétt að það sem hér er verið að fjalla um eru ákaflega sértækar aðgerðir sem á að beita á mjög þröngu sviði, við skilyrði sem sérstaklega hefur verið kannað að geti orðið til gagns, og það er vegna þess að afkoma fyrirtækjanna á þessu svæði er slæm, verri en alls staðar annars staðar. Þetta er byggðaaðgerð sem kemur til út af því að það er þorskbrestur og ef sjávarútvegsfyrirtækin lifa ekki af, þá hefur fólk á þessu svæði ekki að öðru að hverfa vegna þess hvernig atvinnustarfseminni er hagað á þessum stað. Um þetta hefur verið fjallað. Það hefur verið skýrt frá því að það er ekki atvinnuleysið sem ræður þessari aðgerð, heldur hitt að menn geta búist við því að atvinnulífið hrynji á staðnum og það mundi leiða til atvinnuleysis í þeim dúr sem Íslendingar kannast hvergi við eða upp undir 50% a.m.k. Það er þetta sem gerir það að verkum að ríkisstjórnin telur að það sé við hæfi að beita þessum mjög svo þröngu sértæku aðgerðum til að brúa það bil sem þarf að brúa þar til þorskurinn veiðist á ný.