Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 18:20:37 (5450)


[18:20]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hef náttúrlega reynt að skoða málið en ég hef ekki annað í höndunum í raun og veru en þetta snifsi hér. Þetta er ekki merkilegur pappír. Og það er nú satt best að segja ekki mjög mikil undirbygging undir þessu. Þetta eru tvær eða þrjár arkir. Það er allt og sumt sem okkur þingmönnum er

boðið upp á til þess að grundvalla og rökstyðja þetta mál og undirbyggingu þess og það er ekki merkilegt. Það er það ekki, hæstv. forseti.
    Það eru mörg fleiri byggðarlög en Grímsey, þó að hún sé hér nefnd. Hún er vissulega landfræðilega einangruð og nánast alfarið háð sjávarútvegi. Ég get nefnt staði eins og Grenivík, án þess að það sé út af fyrir sig yfirleitt skemmtilegt að vera að nefna einstaka staði. Þar eru menn tiltölulega mjög háðir þorskveiðum. Þar er ekki önnur vinnsla sjávarfangs heldur en hefðbundin vinnsla bolfisks. Í eina stóra vinnustað staðarins hafa menn átt í erfiðleikum, eru að leita samninga um að ná niður skuldum. Það eru í raun og veru að öllu leyti sambærilegar aðstæður við þessar, ef ég má leyfa mér að segja það. Sveitarfélagið hefur bundið sér gífurlegar byrðar við að reyna að endurfjármagna atvinnureksturinn á undanförnum árum og þar er ekki að miklu öðru að hverfa í atvinnumálum a.m.k., nema sækja það um langan veg. Þannig að ég hygg að dæmin séu náttúrlega fleiri og út um allt.
    Auðvitað er það svo, hæstv. forseti, að manni finnst stundum að maður sé kominn aftur til áranna 1988--1989 þegar þetta ber á góma vegna þess að þegar hæstv. forsrh. reifaði t.d. í fjölmiðlum rökstuðninginn fyrr því að þetta yrði nú gert, þá var það nánast upptalning á sömu rökum og þá voru tíunduð. Fyrirtækin þyrftu að hagræða, þau þyrftu að sjá rekstrargrundvöll eftir endurskipulagninguna o.s.frv. Allt var þetta lagt til grundvallar á þeim tíma, þannig að auðvitað er sagan bara að endurtaka sig.
    Ég bakka hins vegar ekki með það, hæstv. fjmrh., að þessi þvingun eða þetta skilyrði án tillits til aðstæðna við sameiningu sveitarfélaga er fullkomlega út úr kú. Það gengur ekki svona.