Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 18:22:51 (5451)


[18:22]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. vék að því í ræðu sinni að sami vandi gæti verið uppi í öðrum kjördæmum, þar á meðal í hans kjördæmi, eins og á Vestfjörðum. Nú kann auðvitað að vera að einstök fyrirtæki víða á landinu séu í svipuðum vanda. En ef horft er á kjördæmin í heild, þá blasa ákveðnar staðreyndir við. Landaður afli á Vestfjörðum á árunum 1992 og samkvæmt þeim horfum sem eru fyrir árið 1994 hefur minnkað um 9,5% meðan horfur eru á að landaður afli í Norðurl. e. minnki um 2,6% á sama tíma. Afkoma sjávarútvegsfyrirtækja í Norðurl. e. hefur verið þeim hætti að 1992 var hagnaður upp á 4,8%, 3,4% 1993 og horfur eru á 1,8% hagnaði á þessu ári meðan taprekstur hefur verið á Vestfjörðum 1992 upp á 1,5%, 0,2% á síðasta ári og 1,9% eins og horfurnar eru fyrir þetta ár. Það eru þessar staðreyndir fyrir kjördæmið í heild sem við blasa og er auðvitað ekki hægt að horfa fram hjá. Hér er þess vegna um að ræða byggðaaðgerð vegna þess að aðstaða Vestfirðinga er lakari en annarra, ekki bara vegna þess að landaður afli hefur minnkað meira þar en annars staðar, heldur líka vegna þess að möguleikar þeirra til að bregðast við eru minni vegna einangrunar og verri samgangna. En aðalatriðið er þó hitt að með almennum aðgerðum hefur tekist að koma, þrátt fyrir erfiðleika, rekstri greinarinnar yfir núllpunktinn og það er meginmunurinn frá þeim samanburði sem hv. þm. var síðan að gera við ráðstafanirnar 1989.