Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 18:28:48 (5454)


[18:28]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er geysilegur misskilningur hjá sjútvrh. að góð loðnuvertíð sé ríkisstjórninni að þakka og ég leyfi mér að orða það þannig að það sem gerst hefur í þessum efnum hefur sjávarútvegurinn íslenski gert þrátt fyrir ríkisstjórnina en ekki vegna hennar. Og þegar það er fært fram sem sérstök lofgjörð um almennar aðgerðir ríkisstjórnar, eins og hæstv. fjmrh. gerði hérna, að hún hafi fellt gengið, hvað má þá segja um þá almennustu af öllum almennum sem felldi nú gengið næstum að segja vikulega á árunum? Það er auðvitað harla broslegt þegar menn eru farnir að hrósa sér af slíkum hlutum.
    Það er rétt að sjávarútvegurinn hefur kannski aldrei, við þær erfiðu aðstæður sem hann hefur barist í núna, sýnt betur eða fyrr hversu hann er þó megnugur þrátt fyrir allt. Það er auðvitað alveg undravert hvað menn hafa náð að gera við þessar erfiðu aðstæður og hvernig mönnum hefur tekist að mæta verðfalli og þrauka og halda sjó gagnvart miklum erfiðleikum, aflasamdrætti og verðfalli. Mætti t.d. taka rækjuiðnaðinn sem dæmi, ótrúleg seigla sem menn hafa sýnt í þeirri grein við að auka afköstin, taka upp vinnu á vöktum o.s.frv. til þess að ná að mæta jafnt og þétt fallandi verði yfir langt tímabil.
    Hitt er auðvitað eðlilegt að hæstv. sjútvrh. reyni að þvo hendur sínar af þessu máli með því að segja: Þetta er byggðaaðgerð, kemur mér ekki við, ég á ekki einu sinni fulltrúa í stjórninni, þó að frv. gangi út á það að það eru sjávarútvegsfyrirtæki og engin önnur sem eiga í hlut. Þetta er frv. um aðgerðir gagnvart sjávarútvegsfyrirtækjum, hafði hæstv. sjútvrh. ekki tekið eftir því? ( Sjútvrh: Það er nú bara ekki önnur atvinna . . . ) Það er bara ekkert verið að tala um sláturhús eða flugstöðvar eða annað því um líkt í þessu frv. Það eru sjávarútvegsfyrirtæki, hæstv. sjútvrh. Og auðvitað lýsir það betur en margt annað metnaðarleysi hæstv. sjútvrh. að hann skuli standa að því að þetta sé flutt sem stjfrv., með þessum endemum, mismuna mönnum svona eftir landafræði og eiga svo ekki einu sinni fulltrúa í þeirri nefnd sem á að standa að framkvæmd málsins. Auðvitað er það fullkomið metnaðarleysi af hæstv. sjútvrh. Nema það sé þannig að hæstv. sjútvrh. viti sem er að málið er svo meingallað og vont að hann hafi kosið og jafnvel verið feginn að þurfa ekki að koma nálægt því og ekki einu sinni að tilnefna mann í nefndina. Það skyldi nú ekki að vera að það væri skýringin, að þetta sé liður í því hjá hæstv. sjútvrh. að þvo hendur sínar af þessum málatilbúnaði.