Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 18:47:26 (5457)


[18:47]
     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að rafmagnsverð hefur hækkað meira til húshitunar heldur en til fyrirtækja. Til húshitunar hefur það hækkað almennt um 13% en 8% til fyrirtækja. En ég læt það liggja milli hluta.
    En varðandi fyrirgreiðslu til annarra kjördæma þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra að því, vegna þess að hann sagði að það tæki langan tíma að gera úttektir líkt og gerðar voru á Vestfjörðum. Það er nánast búið að gera slíka úttekt á Snæfellsnesinu, þeirri úttekt verður lokið fyrir mánaðamót. Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Fáum við svipað frv. eins og hér liggur fyrir? Mér finnst það vera mest áríðandi spurningin en varðandi skattalækkanir almennt, ef við setjum þetta debet og kredit, þá eru engar skattalækkanir sem hægt er að monta sig af æ ofan í æ hér af ræðustóli. Það er hægt að telja upp nokkur atriði þar sem skattar hafa lækkað, en það er hægt að telja upp jafnmörg atriði þar sem skattar hafa stórkostlega hækkað. Og hann svaraði því ekkert varðandi vextina, hvað vextirnir hafa hækkað á þessu kjörtímabili og hvað þeir einir hafa íþyngt fyrirtækjunum.