Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 18:49:10 (5458)


[18:49]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst nú dálítið djarft af hv. þm. að nefna vextina því að öllum er ljóst að eitt af því stærsta sem ríkisstjórnin hefur gert er að beita sér fyrir því með markaðsaðgerðum að lækka vexti. Það er hins vegar ljóst að mörg sjávarútvegsfyrirtæki bera vexti af erlendum lánum eða sem miðast við erlent gengi og hafa þess vegna sloppið tiltölulega betur en önnur fyrirtæki í gegnum tíðina því að vextir hér hafa verið hærri heldur en annars staðar. En ég held að það sé ekki hægt annað en að viðurkenna að vextir nú eru lægri heldur en þeir hafa verið um árabil og þá eru talin með ár fyrrv. ríkisstjórnar, þau eru talin með eins og vaxtastaðan er í dag.
    Um skattana, þá er auðvitað ólíku saman að jafna. Tryggingagjaldið skilar ríkissjóði 700 millj. kannski eða þar um bil, en aðstöðugjaldið var 4.000 millj. kr. í heild. Auðvitað eru það alls konar fyrirtæki, ekki einungis sjávarútvegsfyrirtæki. Það er auðvitað alveg ljóst og ekkert hægt að hrekja það að skattar hafa lækkað á fyrirtækjum. Og hjá þeim fyrirtækjum sem borga tekjuskatta þá bætist það við að skatthlutfallið hefur lækkað úr 45% í 33%.
    Varðandi Snæfellsnes þá get ég ekki svarað þeirri fyrirspurn, því miður. Það verður að beina henni til forsrh. Ég get þó sagt að aðgerðir Jöfnunarsjóðs munu að sjálfsögðu ganga til þessara sveitarfélaga, sem eru að renna saman í eitt, ef þau falla undir þá reglu sem á að notast við. Svo vil ég geta þess, af því að það þarf að koma mjög skýrt fram, að ríkissjóður hefur hjálpað þessum sveitarfélögum. Ég minni t.d. á skipið Má í Ólafsvík, sem hefur fengið stórfellda hjálp úr ríkissjóði og Ríkisábyrgðasjóði á undanförnum árum. Það verður líka að taka tillit til þess að það voru sértækar aðgerðir sem voru notaðar gagnvart því skipi sem sá þekkir mjög vel sem hér stendur.