Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 19:04:24 (5462)


[19:04]
     Guðjón A. Kristjánsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir spurði mig að því hvaða kerfi ég vildi hafa á stjórnun fiskveiða. Ég sagði það að ég teldi ekki efni til þess að auka frelsi í þorskveiðum, karfaveiðum eða grálúðuveiðum. Ég sagði hins vegar líka að ég teldi að þorskstofninum væri ekki stórkostleg hætta búin þó svo við ykjum þorskveiðarnar um 15--30 þús. tonn. til þess að láta þetta fiskveiðiár ganga upp. Þannig að ég held að það hafi alveg komið skýrt fram mitt svar við því. Og ég þykist alveg fullviss um að hvaða tillögur sem ég hefði svo sem um það að gjörbylta núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, þá næðu þær sjálfsagt ekki hér í gegnum Alþingi. Þannig að ég reikna alveg með því að menn yrðu nú að sætta sig við það að hafa kvóta á tegundum eins og þorski, karfa og grálúðu sem við vitum og menn eru nokkuð sammála um að sé ekki hægt að gefa frelsi í að veiða. En það hlýtur hins vegar að vera hægt að gefa frelsi í þær fisktegundir sem við höfum ekkert verið að veiða upp í hættumörk á og ekki endilega nauðsynlegt að hafa þær tegundir inni í kvóta og menn skuli þurfa að kaupa þær sín á milli. Ég sé engan tilgang í því.
    Vandinn er hins vegar sá að við stundum ekki almennar botnfiskveiðar hér á landi án þess að fá einhvern þorsk. Það er vandamálið sem við stöndum öll frammi fyrir og það þýðir ekkert fyrir okkur að halda að við munum stunda þessar veiðar næstu fjóra mánuði án þess að það veiðist þorskur og við því hefði þurft að bregðast með einhverjum hætti. Mér hefur svo sem dottið í hug aðferð til þess, en ég ætla ekki að opinbera hana hér og nú. En ég er líka alveg viss um að þegar ég opinbera hana, þá munu flestir verða á móti henni, sérstaklega þeir sem eru að vernda núverandi kerfi vegna þess að þeir munu segja: þetta vegur hugsanlega að núverandi stjórnkerfi, þó að það gæti orðið til þess að við næðum að láta þessa fjóra næstu mánuði ganga upp, þó að tillagan hljóðaði ekki upp á annað en að hún dygði út þetta fiskveiðiár. En þetta verður sameiginlegt vandamál okkar allra.