Tollalög og vörugjald

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 19:12:28 (5468)


[19:12]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Það mál sem hér er til umræðu ætti að vera þingmönnum nokkuð kunnugt. Það tengist því að garðyrkjubændur þurfa í auknum mæli að sætta sig við samkeppni erlendis frá. Tilgangur frv., sem kemur fram í greinargerð með frv., er að styrkja samkeppnisstöðu þeirra með því að endurgreiða annars vegar toll og hins vegar vörugjald af tilteknum aðföngum sem notuð eru til framleiðslu á gróðurhúsavörum ýmiss konar.
    Ég tel ekki ástæðu, virðulegur forseti, til að hafa mjög mörg orð um þetta frv. Það skýrir sig sjálft. Um þetta hefur hæstv. landbrh. nokkuð fjallað og ég veit að ýmsir hv. þm. hafa haft sérstakan áhuga á þessu máli.
    Í athugasemdunum kemur fram að um árabil hafi garðyrkjubændur notið verndar í formi innflutningstakmarkana. Á því verða nokkrar breytingar, fyrst með tvíhliða samkomulagi við Evrópubandalagið og eins má vænta þess að Alþingi samþykki þegar tímar líða að Ísland taki þátt í Úrúgvæ-samningslotunni og samþykki þær ráðstafanir sem gera þarf vegna þess alþjóðlega samkomulags. Þá verða beinar innflutningstakmarkanir felldar úr gildi og eðlilegt að nú séu tekin skref í þá átt að jafna eins og hér er gert ráð fyrir samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda miðað við innflutt verð.
    Hugmyndin er sú að fjmrh. felli niður þar sem það á við eða endurgreiði tolla og vörugjöld en eins og fram kemur í frv. eru ýmis aðföng sem þarna eru nefnd til sögunnar aðföng sem nota má í öðru skyni heldur en eingöngu fyrir garðyrkjubændur.
    Ég tel að sjálft frv. útskýri nokkuð vel út á hvað það gengur efnislega og óska eftir að því verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.
    Þess skal getið að við lauslegt mat fjmrn. má búast við að þessi niðurfelling kosti ríkissjóð um 10 millj. kr. í töpuðum tekjum á heilu ári miðað við innflutning ársins 1992.