Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 20:52:56 (5487)


[20:52]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé full ástæða til að koma hér strax að lokinni þessari ræðu og segja örfá orð. Það getur vel verið að hv. þm. telji það sér til framdráttar og sínum flokki að ræða um atvinnuleysi með þeim hætti sem hann gerði hér áðan. Mig langar til þess að minna hv. þm. á að í tíð síðustu ríkisstjórnar sem starfaði við miklu betri efnahagskjör en sú starfar sem hér situr að völdum nú, varð

ekki eitt einasta starf til í atvinnulífinu á Íslandi, ekki eitt einasta starf varð til.
    Árin 1988 og 1989 var atvinnuleysi í Finnlandi og Svíþjóð mjög svipað og á Íslandi. Atvinnuleysi í Svíþjóð er líklega um 12% þegar allt er meðtalið og hátt í 20% í Finnlandi en báðar þessar þjóðir hafa átt við svipaða örðugleika að etja og Íslendingar. Og hvernig skyldi síðan hafa farið með ráðstöfunartekjur hér á landi í tíð þessarar ríkisstjórnar og þeirrar síðustu? Er það ekki dálítið kynlegt þegar maður ber saman þær tölur að ráðstöfunartekjurnar hröpuðu jafnmikið ef ekki ívið meira í tíð síðustu ríkisstjórnar heldur en síðan. Hvernig stendur á því að þessi hv. þm. leyfir sér síðan að koma hér upp og segir öðrum að skammast sín og þeir eigi að fá vítur fyrir að segja frá því hvað gerst hefur hér í efnahagslífinu. Ég býð ekki í hv. þm. þegar hann þarf að líta í spegilinn, sinn eigin pólitíska spegil, ef þetta er það sem hann ætlar að hampa í sínum ræðum.
    Að lokum langar mig til þess af því að hér gefst ekki tækifæri til þess að svara mörgum ræðum, það geri ég að sjálfsögðu síðar í kvöld, þá ætla ég að spyrja hv. þm. og biðja hann um að lýsa hér í einstökum atriðum hvað síðasta ríkisstjórn sem hann sat í gerði fyrir skipasmíðaiðnaðinn. Það er gott að fá það dregið saman í liðunum 1, 2, 3, 4 o.s.frv. Ég hlakka til að heyra þá upptalningu.