Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 20:55:20 (5488)


[20:55]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Varðandi síðustu spurninguna, þá hygg ég að síðasta ríkisstjórn hafi mjög lítið gert að því er varðar skipasmíðaiðnaðinn og iðnrh. hennar var sá sami og var í þessari ríkisstjórn til skamms tíma, gerði nákvæmlega jafnmikið sá og iðnrh. sem var á undan honum og heitir Friðrik Sophusson. Það var ekkert gert og það er auðvitað vandi skipasmíðaiðnaðarins í dag. Þessi umræða er ófrjó, verð ég að segja, hæstv. forseti.
    Hinn alvarlegi veruleiki íslenskra stjórnmála er sá að það eru 7.500 Íslendingar skráðir atvinnulausir hér í síðasta mánuði. Auk þess vitum við að fjöldi fólks fær sig ekki skráðan á atvinnuleysisskrá. Auk þess vitum við að á fjölmörgum heimilum blasir við stórfelldur, fjárhagslegur vandi, gjaldþrotahætta. Auk þess vitum við að á stórum landsvæðum blasa við veruleg efnahagsleg og atvinnuleg vandamál og m.a. gjaldþrot, t.d. á bændaheimilum víða þar sem samdráttarstefnan í landbúnaðinum er að koma niður. Allt liggur þetta ljóst fyrir í raun og veru. Og eina svarið við þessu er auðvitað róttæk jafnaðarstefna í verki. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnir undanfarinna ára hafa ekki horfst í augu við annað eins verkefni og þetta. Og ég tel að það sé ekki stórmannlegt heldur lítilmannlegt að hlaupa inn í sagnfræðilegan samanburð á handahlaupum til þess að bjarga sér, til ríkisstjórna fyrri tíma sem bjuggu við aðrar aðstæður eða leifar af öðrum aðstæðum. Ég get fúslega tekið undir það að hvorki síðasta né næstsíðasta né ríkisstjórnin þar áður hafi tekið á þeim vanda sem nú blasir við. En hann blasir við núna og það er verkefni stjórnvalda núna að taka á málum af þessum toga en ekki með þeirri forherðingu sem birtist í málflutningi ráðherranna sem segja núna við þetta atvinnulausa fólk á Íslandi: Við erum að ná árangri, stórkostlegum árangri. Þetta er eins og blaut, köld tuska framan í andlitið á þeim 7.500 Íslendingum sem nú eru atvinnulausir.