Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 21:00:06 (5490)



[21:00]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Er það ekki málefnalegur veruleiki á Íslandi að það séu 7.500 á atvinnuleysisskrá? Er það ekki rétt að þar af séu 2.981 í Reykjavík? Að það séu 4.500 á höfuðborgarsvæðinu? Er það ekki rétt að gjaldþrotum hafi farið fjölgandi og ríkissjóður, bankar, peningastofnanir og fyrirtæki hafi tapað stórkostlegum fjármunum vegna gjaldþrota að undanförnu? Það er veruleikinn. Hann hefur blasað við um skeið.
    Það er einnig alveg ljóst og það viðurkenna allir að þær ráðstafanir, sem ríkisstjórnin er núna að kynna að því er varðar Vestfirði, leysa í rauninni engan vanda vegna þess að það er svo illa um hlutina búið. Það er hinn efnislegi, pólitíski, málefnalegi veruleiki.
    Það er líka málefnaleg staðreynd að núverandi ríkisstjórn er með slagsíðu íhaldsins þar sem viðhorfin eru þau að það eigi ekki að grípa til neinna félagslegra ráðstafana af neinu tagi, sértækra ráðstafana, helst alls ekki. Og það er ekki fyrr en núna þegar allt er komið í óefni og þegar liðin eru nærri þrjú ár frá því að ríkisstjórnin tók við að menn flytja frv. um litlar 300 millj. til þess að rétta við atvinnuvanda á tilteknum, takmörkuðum hluta Vestfjarða. Ég segi: Ríkisstjórn sem svona seint horfist í augu við 7.500 atvinnuleysingja á Íslandi, á að hætta. Það er mitt málefnalega innlegg í þessa umræðu, hæstv. fjmrh.