Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 21:02:14 (5491)


[21:02]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Það eru út af fyrir sig fróðlegar umræður sem hafa farið fram þó að þær hafi snúist almennt um sjávarútvegsmál og þess vegna kannski er það miður að hæstv. sjútvrh. skuli ekki hafa getað séð sér fært að vera við þessa umræðu og tekið virkan þátt í henni því að svo sannarlega er erfitt að ræða um vanda Vestfirðinga án þess að ræða um sjávarútvegsmál. Svo samofið er það lífi þeirra er þar lifa og starfa.
    Ég vil í upphafi máls míns taka það skýrt fram að ég mun styðja eftir mætti þær aðgerðir sem eiga að verða til þess að leysa þann vanda sem nú steðjar að byggðum Vestfjarða, ekki aðeins út af skertum aflaheimildum þó að ég geri mér grein fyrir því að þess vegna er vandinn einna mestur. Það er margt fleira sem kemur þar til í byggðavandanum en Vestfirðingar eiga minn stuðning í þeim efnum og það vil ég draga skýrt fram. En ég er jafnsannfærður um það að þær aðgerðir sem hér er verið að tala um munu ekki duga einar sér til þess að leysa þann alvarlega vanda sem málefni Vestfjarða eru nú komin í. Það eru blindir menn sem halda að það sé svo.
    Þingmenn hafa gjarnan vitnað til þess hér í máli sínu þegar reynt hefur verið að kryfja það til mergjar hver ástæðan sé fyrir þessum vanda þá segja hæstv. ráðherrar og berja sér á brjóst að það sé fortíðarvandinn sem tekinn hafi verið í arf frá fyrri ríkisstjórn. Við Íslendingar búum nú samt við betri kjör en flestar aðrar þjóðir. Við höfum brotist frá fátækt til bjargálna og stöndumst nú samanburð við þær þjóðir sem fremstar standa. Hér hefur verið um sigurgöngu að ræða fyrir íslenska þjóð.
    Virðulegi forseti. Ég sé að mér hefur orðið það á að ég hef gripið blað sem lent hefur á milli hjá mér. Það eru ekki mín orð sem ég hér hafði, virðulegi forseti. Þetta eru orð hæstv. núv. forsrh., Davíðs Oddssonar, sem hann sagði þegar hann tók við völdum og fór að sækja efnivið í sína fyrstu stefnuræðu sem hann flutti úr þessum stól, hæstv. núv. forsrh., og fór að lýsa því hvernig ástandið væri sem núv. hæstv. ríkisstjórn var að taka við. Því vil ég endurtaka það sem núv. hæstv. forsrh. sagði, með leyfi forseta:
    ,,Við Íslendingar búum við betri kjör en flestar aðrar þjóðir. Við höfum brotist frá fátækt til bjargálna og stöndumst nú samanburð við þær þjóðir sem fremstar standa. Hér hefur verið um sigurgöngu að ræða fyrir íslenska þjóð.``
    Þetta var þá þessi slæmi arfur sem hæstv. ráðherrar tóku við. Þetta var dómur hæstv. forsrh., Davíðs Oddssonar, á því búi sem hann gekk inn á. ( SvG: Hvenær sagði hann þetta?) Þetta er hans fyrsta stefnuræða, hv. þm. Svavar Gestsson og fyrrv. hæstv. ráðherra. ( Fjmrh.: Tímarnir hafa breyst.) Tímarnir hafa breyst. ( SvG: Friðrik er fyrrv. hv.) Já, en ég vil aðeins úr því að ég er farinn að vitna í hæstv. forsrh. grípa hér niður í helga bók, sem þeir gáfu út og þeir kannast við hæstv. ráðherrar, og var hvít bók, Velferð á varanlegum grunni, en þar stendur m.a. á bls. 8 og þá er verið að fjalla um fortíðina og hvernig málin höfðu verið. Með leyfi forseta segir svo í þessari bók:
    ,,Með víðtækum afskiptum`` og ég bið nú hæstv. sitjandi forsrh. að leggja við hlustirnar og vita hvort hann kannast eitthvað við þetta orðalag miðað við þau áform sem ríkisstjórnin er nú með uppi. ,,Með víðtækum afskiptum af lánveitingum og fyrirgreiðslu fjárfestingarlánasjóða hafa stjórnvöld ráðið miklu um hvar og í hvað fé hefur verið verið. Hér á landi líkt og annars staðar þar sem stjórnvöld hafa tekið sér slíkt vald hafa afleiðingarnar verið slæmar.`` Hafa afleiðingarnar verið slæmar, hæstv. ráðherrar. Og síðar segir einnig: ,,Ríkisstjórnin mun hverfa frá miðstýringu og forsjárhyggju sem lengi hefur einkennt stefnu íslenskra stjórnvalda í atvinnumálum.`` Og hér segir enn þá á sömu síðunni: ,,Það er ekki hlutverk stjórnvalda að stýra framvindu atvinnulífsins með stöðugri íhlutun.``
    Það eru margar síður í þessari hvítu bók sem eru í þessum dúr, margar síður í þessari bók. En hver er svo staðan í dag? Hvað kölluðu menn þá sjóði sem menn komu þá upp til varnar og vissulega urðu að gagni. Það blandast engum hugur um það. Það voru sértækar aðgerðir og ég held að menn þurfi ekki að biðjast afsökunar á því að grípa til sértækra aðgerða á Íslandi í atvinnumálum. Þá börðu ráðherrar sér á brjóst þegar þeir komu hér til valda og töluðu um sjóðasukk og aumingjasjóði. Það var nafnið á þeim sjóðum sem fyrrv. ríkisstjórn kom á til þess að bregðast við aðsteðjandi vanda. Það var kallað sjóðasukk og aumingjasjóðir.
    Hins vegar leggur nú ríkisstjórnin fram frv. sem ég verð að segja að kemur mér einkennilega fyrir sjónir að menn skulu ekki hafa vandað betur til þeirrar smíðar en raun ber vitni því að svo freklega finnst mér gengið á hlut og mismunað ekki aðeins fyrirtækjum eins og hér er lagt til, ekki aðeins mismunun á milli fyrirtækja heldur einnig vísvitandi og svo greinilega á milli byggðarlaga einnig.
    Ég verð að segja það að eins og ég hef lesið frv., þá hefði ég ekkert orðið meira hissa þó að ég hefði séð að það hefði verið tekið fram að það væri jafnvel nauðsynlegt fyrir þessi sjávarútvegsfyrirtæki að flytja afurðirnar sínar með ákveðnu skipafélagi og selja þær í gegnum ákveðið sölufyrirtæki. ( SvG: Það verður í reglugerð.) Ég hefði í sjálfu sér ekkert verið hissa á því miðað við að lesa þetta frv. og gera mér grein fyrir því hvað það er sem liggur á bak við ýmsar setningar sem hér eru settar á blað.
    Hv. þm. Pétur Bjarnason flutti mjög gott mál í dag um stöðu þessara mála. Ég get tekið undir það sem hann sagði en mér finnst hins vegar hafa skort á að þingmaðurinn hafi fengið svör við því sem hann spurði um. Hann nefndi svo dæmi sé tekið oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í máli sínu og spurði eftir ákveðnu fyrirtæki, ég get nefnt það aftur, Fáfni á Þingeyri, og það væri fróðlegt að fá að heyra túlkun hæstv. ráðherra á því. Ég vil ítreka þá fyrirspurn hvort ekki sé ljóst að það fyrirtæki megi eiga von á fyrirgreiðslu úr þessum sjóðum eins og fyrirtæki á nærliggjandi fjörðum.
    Það stendur hér í 1. gr. frv. og er illskiljanlegt þar sem verið er að tala um það hverjir eiga möguleika á að fá fyrirgreiðslu úr þessum sjóðum. Margir hafa farið yfir það og hv. þm. Ragnar Arnalds gerði það mjög ítarlega. Þar stendur ,,sem vilja sameinast og til að styðja nýjungar í atvinnulífi``. Svo kemur í 2. gr.
    ( Forseti (SalÞ) : Með leyfi forseta.)
    ,, . . .  sem ætla að sameinast``. Svo segir hér í 3. gr.: ,,Forsendur fyrir lánveitingu samkvæmt lögum þessum eru að sérstakur starfshópur, sem forsrh. skipar, hafi gert tillögur um afgreiðslu á lánsumsóknum viðkomandi fyrirtækja.`` Hér finnst mér vera margt til umhugsunar. Ég verð að segja að sú ríkisstjórn sem nú situr, mér er spurn: Hvernig getur hún sett annað eins á blað miðað við það sem áður hefur verið sagt? En ég ítreka það að fá greið svör við þeim spurningum sem Pétur Bjarnason beindi til hæstv. ráðherra. Það vill nú svo til að það er eftir að fjalla um þetta mál í Byggðastofnun þar sem ég á sæti. Þess vegna gefst mér tækifæri til þess þegar þetta mál kemur þangað að spyrjast ítarlega fyrir um þetta og ræða málið. En ég mun ekki sætta mig við það að fyrirtækjum og byggðarlögum á Vestfjörðum verði mismunað eins og mér sýnist að hér sé verið að leggja til. Ég vil ekki sætta mig við það og mun vinna af alefli til þess að svo verði. Það er vitaskuld alveg fráleitt, það er alveg fráleitt, ef það er meiningin með þessum aðgerðum.
    Hæstv. fjmrh. sagði í dag að sér væri ljóst að þær ráðstafanir sem eru boðaðar muni ekki leysa þann vanda sem við er að fást á Vestfjörðum, þær muni aðeins brúa bil, og það mun rétt vera. Ég velti því þá fyrir mér af hverju við göngum ekki hreint til verks og reynum að leysa vandann til einhverrar framtíðar. Gallinn er sá því miður að í langan tíma hefur það verið svo að nánast öll umræða um sjávarútvegsmál, hvort sem það er á Alþingi eða hjá samtökum útvegsmanna og sjómanna, hefur snúist um aðeins eitt mál, stjórnun fiskveiða, og þá gjarnan um mjög afmarkað svið sem er um kvótamál. Afkoman í greininni, rekstrargrundvöllurinn sjálfur, hefur gleymst í þessari umræðu, hefur aldrei komist að. Það er það sem er fyrst og fremst vandi Vestfjarða. Byggðir Vestfjarða mundu standa vel ef þær hefðu haft rekstrargrundvöll og haft möguleika á því að græða í þessari atvinnugrein eða a.m.k. að skila þokkalegum árangri. En því miður hefur það ekki verið svo að fyrirtækin hafi getað búið við slíkt og það er áhyggjuefni. Það er öllum hugsandi mönnum ljóst að það eru milljarðar á milljarða ofan sem hafa verið fluttir á undanförnum árum frá þessum byggðarlögum. Auðvitað hlýtur að hrikta einhvers staðar í þegar svo er. Það hlýtur að verða krafa þeirra sem í þessari atvinnugrein standa og miklu fleiri að sjávarútvegurinn fái viðunandi starfsgrundvöll.
    Ráðherrann vék einnig að vaxtalækkunum og þeim afrekum sem ríkisstjórnin hefði unnið á því sviði að lækka vexti. En ég velti því fyrir mér undir orðum hæstv. ráðherra hvort vaxtalækkunin vægi ekki nokkurn veginn upp á móti því sem ríkisstjórnin hafði hækkað vextina. Ég efast um að það muni mjög miklu þar á. Hann fór einnig að tala um afrek ríkisstjórnarinnar í því að ná niður verðbólgunni. Það er rétt að verðbólgan hefur náðst niður. En hvar var verðbólgan þegar þessi ríkisstjórn kom til valda? Verðbólgan náðist niður með sáttagjörð milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins sem var ekki í tíð þesarar ríkisstjórnar, var gerð í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. Og ætli verðbólgan hafi þá ekki, þó að ég muni það ekki nákvæmlega, verið svona 6% þegar þessi ríkisstjórn tók við. En vissulega er það svo að það er einn okkar besti ávinningur að okkur hefur tekist að halda hér lágu verðbólgustigi.

    Hæstv. sjútvrh. kom aðeins í ræðustól í dag og minntist á nýjar afkomutölur í sjávarútvegi. Ég verð að segja að ég fagnaði því mjög þegar ég heyrði þær tölur sem ráðherrann bar fram að sjávarútvegurinn væri rekinn nú réttu megin við strikið, ég man ekki hvað, núll komma eitthvað það var sem ráðherrann gat um samkvæmt útreikningum Þjóðhagsstofnunar. Ég fagna því. En eftir að hafa litið á þessar tölur þá langar mig til að spyrja hæstv. sjútvrh. að því: Hvert er mat Þjóðhagsstofnunar á afkomu veiða og vinnslu í botnfiski? Það finnst mér vera nauðsynlegt að við fáum hér inn í þessa umræðu. Að við drögum botnfiskveiðarnar fram sér og fáum að vita hver afkoman er í botnfiskveiðum og vinnslu.
    Það er líka rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að ýmislegt hefur verið gert í sjávarútveginum. Það eru mikil sóknarfæri þar enn þá sem eru ónýtt. Menn hafa sótt þar djarflega fram miðað við það hvað sóknin til hafsins hefur verið skert og náð þar ótrúlega miklum árangri. En það sem er verst er að linnulausar kröfur ríkisvaldsins á þessa aðila sem í greininni standa um aukna hagræðingu og bætta afkomu gengur endalaust fram án þess þó að ríkisstjórnin gefi hin minnsta ádrátt um það hver stefnan til frambúðar eigi að vera. Það er vitaskuld alveg vonlaust verka að ætlast til þess að þeir sem í sjávarútvegi starfa geti haldið áfram að hagræða og skipuleggja rekstur sinn fram í tímann án þess að fá að vita hvert starfsumhverfið á að vera. Það er vita vonlaust fyrir ríkisstjórnina að koma sí og æ og gera kröfur á þessa stétt og þá sem í þessari grein starfa án þess að vera komin með það upp á borðið hver starfsgrundvöllurinn á að vera, það verða menn að fá. En ég sé ekki að það hilli undir slíkt. Til okkar í sjútvn. hefur komið mikill fjöldi manna og gefið okkur sitt álit á því frv. sem til meðferðar er um stjórn fiskveiða og Þróunarsjóðinn og ég held að það sé ekkert ofsagt þótt sagt sé að flestir segi að þau væru best komin fyrir utan gluggann. Ég held að það sé engin sátt, svo langt frá að það sé nokkur sátt um þessi frv. Ég sé því ekki fram á það þann stutta tíma sem eftir lifir þingsins hvernig menn ætla að koma því máli í gegn á einhvern vitrænan hátt og í sátt við þá sem við eiga að starfa. Það hlýtur að vera grundvallarmálið.
    Við þurfum auðvitað að fá stefnu í sjávarútvegsmál. Menn tala nú mikið um innflutning skipa og menn tala um vanda ýmissa byggðarlaga, menn hafi verið að kaupa ný skip, frystihúsin séu skilin eftir hráefnislaus og vinnslan flutt út á sjó. Er það nú engu að síður staðreyndin að allt hefur þetta gerst nánast tilviljanakennt? Er nema von að þetta hafi gerst? Hver er ástæðan? Ástæðan er einfaldlega sú að afkoman hefur verið góð í rekstri frystitogaranna en afleit í rekstri annarra togara. (Forseti hringir.)
    Ég skal ljúka máli mínu, virðulegi forseti. En aðeins að lokum vil ég segja það, virðulegi forseti, að í allri þeirri umræðu sem nú hefur farið fram verðum við að gæta okkar í því að rjúka ekki upp til handa og fóta og fara að auka aflann og sækja í þorskinn að nýju í auknum mæli. (Forseti hringir.) Ég vil velta upp þeirri hugmynd hvort ekki væri leið að ná sátt um að það opinbera kæmi inn í það sem almenna aðgerð, sem almenna aðgerð, að veita fjármagn til þess að okkur takist að ná viðskiptum við erlend veiðiskip og flytja þannig afla til landsins.
    ( Forseti (SalÞ) : Tíminn er búinn.)
    Virðulegi forseti, ég er alveg að ljúka máli mínu, ég á örfáar setningar eftir.
    ( Forseti (SalÞ) : Tíminn er löngu búinn.)
    Ef við gætum flutt inn 25 þús. tonna afla og greiddum niður aflann þó ekki væri nema um 12--13 kr. á kg þá yrði þetta í framleiðsluverðmæti tæpir 4 milljarðar kr. og landsvirðisauki, það sem eftir stæði, væri 1,5 milljarðar kr. Hér þyrfti um 330 millj. kr. til að gera þetta mögulegt. (Forseti hringir.) Þetta mundi skapa um 2.440 ný störf í íslenskum sjávarútvegi.