Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 21:26:34 (5493)


[21:26]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því vissulega ef um bót er að ræða á rekstrarafkomu sjávarútvegsins. En ég efast um það og bíð eftir svarinu, hæstv. ráðherra, um hver afkoman veiða og vinnslu er í botnfiskveiðum. Og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann vilji gefa gaum þeirri hugmynd, sem ég skaut hér fram, að gripið yrði til aðgerða og þeim fyrirtækjum sem vilja og geta keypt afla af erlendum veiðiskipum verði gert það kleift þó ekki væri nema með slíku framlagi eins og ég gat um 12--13 kr. á kg sem myndi kosta rétt um 300--400 millj. kr. Hér er ekki um sértæka aðgerð að ræða. Þetta er aðgerð sem allir sætu jafnt að sem mundi þýða það að ef við næðum hér 25 þús. tonnum til að vinna úr þá þýðir það í framleiðsluverðmæti tæpa 4 milljarða kr. og vinnulaun upp á 875 millj. kr. Ef við þyrftum að borga atvinnuleysisbætur þá er það 334 millj. kr., það er sama tala og ég er hér að tala um. Þetta mundi hins vegar skilja eftir sem landsvirðisauka, hvorki meira né minna en um 1,5 millj. kr. Þessi 25 þús. tonn mundu skapa hér sumarstörf fyrir 2.440 manns. Ég spyr: Er þetta ekki sú aðgerð sem þarf að grípa til? Ríkisstjórnin hefur beðið Byggðastofnun að fara yfir það á hvern hátt megi brúa bilið í öðrum landshlutum. Er þetta ekki sú aðgerð, ekki sértæk aðgerð, heldur aðgerð sem allir myndu njóta. Og ég spyr: Hefur ríkisstjórnin hugleitt eða vill hún hugleiða slíka möguleika í aðgerðum sínum?