Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 21:36:51 (5498)


[21:36]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. að halda að það hafi verið óyndisúrræði að hækka vextina. Það var gjörsamlega bráðnauðsynleg aðgerð til þess að koma í veg fyrir að allt færi á annan endann því það streymdi fé úr ríkissjóði, lánsfjárþörf ríkissjóðs var margir tugir milljarðar króna, skuldirnar hrönnuðust upp í Seðlabankanum og þetta var brýn nauðsyn vegna þess að fyrrv. ríkisstjórn hafði látið undir höfuð leggjast að gera þetta. Síðan var gripið til aðgerða í ríkisfjármálum sem leiddu til minni lánsfjárþarfar og þá var hægt á markaði að breyta vaxtastiginu. Þetta hélt ég að allir væru sammála um.
    Ég er hins vegar alveg sammála hv. þm. um að það var á dögum fyrrv. ríkisstjórnar sem þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir --- hverjir gerðu þessa samninga? Það voru Einar Oddur Kristjánsson og Ásmundur Stefánsson sem tóku fram fyrir hendur ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin studdi það. Það gerði Sjálfstfl. líka þótt hann væri í stjórnarandstöðu og mættu hv. stjórnarandstöðuþingmenn kannski temja sér það af og til að standa með ríkisstjórn og standa með því sem gert er á tíma ríkisstjórnar jafnvel þótt þeir séu í stjórnarandstöðu. Það gerði Sjálfstfl. á sínum tíma og ég vænti þess að hv. þm. Framsfl. sjái sóma sinn í því að standa a.m.k. með þeim úrræðum sem þeir telja vera sæmileg og núv. ríkisstjórn leggur til.