Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 21:38:26 (5499)


[21:38]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé óhætt að fullyrða það, hæstv. fjmrh., að þingmenn Framsfl. munu vera ábyrgir í sínum málflutningi, það held ég að sé alveg morgunljóst.
    Með hækkun vaxta, hæstv. ráðherra, mun halli ríkissjóðs eitthvað hafa vaxið ef ég skil hlutina rétt. Ætli það hljóti ekki að gefa auga leið. Og hæstv. ráðherra sagði að auðvitað hafði vaxtahækkunin alveg gífurleg áhrif. Það er rétt. Hún hafði gífurleg áhrif. Gjaldþrotaskriðan byrjaði. Fyrirtæki fóru í unnvörpum nokkurn veginn lóðbeint á hausinn vegna þessara aðgerða og okkur hefur ekki enn þá tekist að stöðva þessa gjaldþrotaskriðu. Við erum einmitt í dag m.a. að fjalla um afleiðingar þessa verknaðar.