Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 21:59:56 (5504)


[21:59]
     Árni Johnsen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég gat ekki séð að hv. þm. gæti fært sönnur á þá aðferðafræði sem hann stillti upp því að hún byggðist fyrst og fremst á því að ákveða hluti með geðþóttaákvörðunum. Að taka af einum og leggja til annars miðað við það hvort sólin skín í heiði eða ekki, vera í góðu skapi eða ekki, það gengur ekki. Það gilda ákveðnar reglur í þessu kerfi sem menn hafa staðið nokkuð heilt að frá því að það var sett á fyrir tíu árum. Upp á síðkastið hafa menn reynt að gera þetta kerfi pólitískt, ekki síst Alþb. með samþykkt um það að framsalsréttur á kvóta sé nánast lögbrot. Og þetta er nýtt innlegg flokkslega í dæmið þar sem menn eru að reyna að skapa sér sérstöðu í máli þar sem menn ættu að hafa reisn til að standa saman og taka á sig þá ábyrgð að sinna óvinsælu verkefni því að það hlýtur alltaf að vera óvinsælt verkefni að standa á bak við kvótakerfi í hvaða mynd sem er.
    En jöfnun með geðþóttaákvörðunum held ég að henti ekki í okkar landi.