Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 22:01:30 (5505)


[22:01]
     Pétur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í tilefni ummæla hv. 3. þm. Suðurl. vil ég taka fram nokkur atriði. Hann sagði t.d. varðandi Vestfirðinga að ekki væri ástæða til að stilla þeim upp með einhverja sérstöðu, en þá hafði hann nýlokið við að lesa athugasemdir við lagafrv. þar sem hann var að rekja allar þær ástæður sem stilla þeim upp með einhverja sérstöðu.
    Hann sagði líka að Vestfirðingar hafi síður brugðist við vanda en aðrir landsmenn. Þeir hefðu ekki aðlagast þeim vanda sem við þeim hefur blasað. Ég vil í því sambandi aðeins rifja upp það sem ég gat um í ræðu minni í dag að það er eitt og annað sem veldur því að þrátt fyrir það að Vestfirðingar hafi vissulega brugðist við vandanum og reynt að aðlagast þá hafi þeir erfiðleikar sem þar hafa blasað við verið meiri en annars staðar. Ég minni enn á það að Þjóðhagsstofnun hefur staðfest það að á árabilinu 1988--1993 hafa Vestfirðingar tapað 4 milljörðum kr. á aflasamdrætti og kvótakerfinu. Þarna eru innan við 10 þúsund manns og þá er hægt að reikna út hvers konar tap þetta er á hvert mannsbarn á Vestfjörðum og það getur hver og einn séð í hendi sér hvaða áhrif þetta hefur.
    Vestfirðingar hafa reynt að bregðast við þessu. Þeir hafa líka, eins og ég gat um, misst frá sér rækjukvóta. Þeir hafa misst frá sér grálúðukvóta. Það hefur verið verðlækkun á rækju. Það var skrúfað fyrir hrefnuveiðar fyrir nokkrum árum. Allt eru þetta atriði sem snerta Vestfirðinga og auka á vanda þeirra. En það er síður en svo að þeir hafi ekki reynt að bregðast við þessu. Þeirra bjargráð hafa m.a. verið að draga saman, hagræða, setja upp nýjar vinnslulínur, reyna að taka upp fullvinnslu. Þeir hafa orðið að selja undan sér björgina, bara til þess að standa uppréttir þannig að ég get ekki legið undir því að Vestfirðingar hafi ekki gert það sem þeim hefur verið fært til þess að bregðast við vandanum, til að mæta honum á þann hátt sem mögulegt var. Málið var að vandinn var svo stór að það réðist ekki við hann. Ofan á þetta komu gjaldþrot og svo fjöldamargt fleira sem menn þekkja. En hann nefndi að lokum, virðulegi forseti, ég er að verða búinn, að e.t.v. mætti sameina Vestmannaeyjar og Vestfirði. En þá vil ég segja frá einum þreyttum sameiningarmanni fyrir vestan sem var búinn að basla mikið. Hann var búinn að fá niðurstöðu í hvaða sameining væri hentugust á Íslandi. Hún væri sú að hafa aðeins þrjú sveitarfélög: Ísland, Vestmannaeyjar og Bolungarvík.