Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 22:17:55 (5509)


[22:17]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Varðandi þessa fyrirspurn vil ég fyrst taka fram að í viðræðum við Samband ísl. sveitarfélaga varðandi framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga komu tvær leiðir til greina. Sú fyrri var að þetta framlag sem kemur úr Jöfnunarsjóðnum yrði tekið af framlagi sem fer í Lánasjóð sveitarfélaga en um það var nokkuð rætt í sveitarfélaganefndinni sem hefur fjallað um þetta á umliðnum missirum. Samband ísl. sveitarfélaga féllst ekki á að þetta yrði tekið af framlagi sem á að renna til Lánasjóðs sveitarfélaga, en kaus heldur að leggja til að þetta yrði tekið af öðrum framlögum Jöfnunarsjóðs. Hvort þetta skerðir tekjujöfnunar- eða þjónustuframlög get ég ekki sagt um nú. Til að mynda má nefna í því sambandi að á sl. ári var áætlað að 30 millj. færu til sameiningar sveitarfélaga og áætlað til þess um 30 millj. kr. Það komi ekki niður á tekjujöfnunar- eða þjónustuframlögunum. Ég get því ekki sagt um hvort það gerir það á þessum árum þar sem Jöfnunarsjóðurinn á að láta þennan hlut, en það hefur ávallt og sérstaklega á sl. ári verið reiknað með töluverðri upphæð vegna sameiningarmála. Það var val Sambands ísl. sveitarfélaga að þetta yrði með þessum hætti en ekki tekið af Lánasjóði sveitarfélaga.
    Varðandi úttektina í öðrum byggðarlögum sem um var spurt og Reykjavík nefnd sérstaklega: Sú forskrift sem Byggðastofnun er gefin í þessu sambandi kemur fram í fskj. með þessum frumvörpum. Það er um að ræða að gera úttekt á byggðarlögum sem kunna að hafa orðið fyrir sambærilegum samdrætti í aflaheimildum, búa við áþekkta einhæfni atvinnulífs og einangrun og vinna að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða við sameiningu sveitarfélaga. Ég geri ekki ráð fyrir að Reykjavík falli undir þessa skilgreiningu.