Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 22:33:57 (5513)


[22:33]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin. Það liggur þá ljóst fyrir að það hafa engin fyrirheit verið gefin í Vestur-Barðastrandarsýslu um fjárframlög úr Jöfnunarsjóði vegna að sameining sveitarfélaga þar upp á 77 millj. kr. Ég spurði einfaldlega um hvort það væri rétt og það er þá klárt að svo er ekki.
    En af því að því máli er blandað inn í frv. um aðstoð við sjávarútvegsfyrirtæki spyr ég hæstv. ráðherra hvort ekki komi til greina að jafna fjárhagsstöðu sveitarfélaga eftir því hvað þau hafa þurft að leggja mikið fram í atvinnulífið þannig að þau sem hafa þurft að leggja mikið fram geti fengið einhverja fjármuni frá hinu opinbera til að minnka þær byrðar. Mér finnst það sú jöfnun sem menn ættu að gera. Ef menn á annað borð eru að blanda Jöfnunarsjóði og fjárhagsstöðu sveitarfélaga inn í þetta mál þá ætti það að vera á þann veginn að sveitarfélög sem þyrftu að verja verulegu fjármagni í atvinnulífið ættu að fá einhvern hluta af því úr Jöfnunarsjóði og önnur ekki eins og mundi verða. Það hefði mér fundist mikið eðlilegri aðgerð gagnvart þessu máli, það hefði fallið betur að því. Ég er ekki að segja endilega að ég mundi styðja það en mér fyndist það rökréttara.