Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 22:45:48 (5516)


[22:45]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það stendur alveg óhaggað að samvinna þáv. ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og verkalýðshreyfingarinnar leiddi til þjóðarsáttarinnar og við þurfum ekki að karpa um það. En annað er, sem ég vil benda á og undirstrika sérstaklega, að þrátt fyrir að verð á sjávarafurðum hafi lækkað þá hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða haldist furðu stöðugt. Það hefur gerst undir því skipulagi í fiskveiðum og vinnslu sem komið var á í tíð fyrri ríkisstjórnar og var byrjað að þróa árið 1983 þegar kvótakerfinu var komið á. Það reyndist ekki verr en þetta þannig að núv. ríkisstjórn hefur einnig búið að þessum arfi í sjávarútveginum.
    Ég held að þetta verði að koma fram líka svo sögufyrirlestrinum sé haldið áfram og við hæstv. fjmrh. túlkum þá söguna sameiginlega.