Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 22:47:39 (5517)


[22:47]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. 2. þm. Austurl. var að gera tilraun til þess að snúa út úr orðum mínum um það almenna samkomulag sem ég tel að hér ríki um grundvallaratriði fiskveiðistjórnunar í landinu. Það er rétt sem hv. þm. minnti á að þetta kerfi var fyrst þróað í samstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. og hefur verið að þróast síðan. Fyrir síðustu kosningar voru mismunandi skoðanir í þessu efni og núv. stjórnarflokkar höfðu þar ólíkar skoðanir. Það tókst að samræma þær og þegar niðurstaða lá fyrir í endurskoðunarnefnd ríkisstjórnarflokkanna var ljóst að það yrði haldið áfram í grundvallaratriðum með það kerfi sem við höfum verið að þróa. Það liggja fyrir þinginu í samkomulagi stjórnarflokkanna tillögur um lagfæringar á gildandi lögum en það liggja engar tillögur fyrir þinginu um að breyta kerfinu í grundvallaratriðum. Það er þess vegna fullkomin vissa um það að í þeim efnum ætlum við að halda áfram á sömu braut. Það hafa alltaf verið uppi mismunandi skoðanir um útfærsluatriði og er ekki nýtt, en vissan sem sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir felst í því að það stendur ekki til að breyta í grundvallaratriðum um fiskveiðistjórnun. Eini flokkurinn í þinginu sem boðar einhverja óvissu í því efni er Alþb. og ég veit að hv. 2. þm. Austurl. er sammála mér í því að sá boðskapur raskar ekki ró sjávarútvegsins í landinu.