Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 23:12:13 (5528)


[23:12]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. verður að sitja uppi með þau vonbrigði sín að stjórnarflokkarnir hafa sammælst um að standa hér að flutningi frv. sem mælir fyrir um lagfæringar á gildandi lögum um stjórn fiskveiða. Það er niðurstaða sameiginlegrar nefndar sem þessir flokkar settu á fót til að endurskoða fiskveiðistjórnunarlögin, að rétt sé að byggja áfram í grundvallaratriðum á því kerfi. Sannleikurinn er sá að það hefur skilað mjög verulegum árangri. Hluti af skýringunni á því að sjávarútvegurinn er nú að skila svolitlum hagnaði þrátt fyrir erfiðleikana er sá að sjávarútvegurinn hefur vegna kvótakerfisins getað nýtt sér þær almennu efnahagsráðstafanir sem hafa gjörbreytt starfsskilyrðum hans og tryggt honum betri samkeppnisskilyrði en hann hefur haft í áratugi. Kvótakerfið hefur átt mjög verulegan þátt í þessu. Niðurstaða Þjóðhagsstofnunar sýnir líka að framleiðniaukning í sjávarútvegi hefur verið miklu meiri, hvort heldur litið er á framleiðni vinnuafls eða fjármagns, en í öðrum atvinnugreinum og atvinnulífinu í heild. Að verulegu leyti má rekja þennan gífurlega framleiðniárangur til kvótakerfisins. Allar þessar tölulegu staðreyndir liggja fyrir og hv. þm. getur ekki horft fram hjá þeim. Og það er kannski fyrst og fremst þess vegna sem nokkuð breið samstaða er um það að fylgja í grundvallaratriðum eftir þessu skipulagi við stjórn veiðanna.

Það er svo vandi Alþb. að geta ekki gert upp hug sinn í þessu efni, en það er ekki vandi íslensks sjávarútvegs.