Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 23:13:55 (5529)


[23:13]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er eins og venjulega með hæstv. sjútvrh., hann blandar öllu saman þegar verið er að ræða stjórn fiskveiða og kýs ævinlega að tala um sjávarútveginn sem heild. Auðvitað er kvótakerfið ekki uppsprettan að arði í sjávarútveginum sem slíkt. Það hefur enginn getað eða reynt, ekki gert tilraun til að sanna hér í ræðustól á Alþingi að kvótakerfið kæmi þannig út og það er þess vegna sem það er enginn rökstuðningur í tvíhöfða skýrslunni um kvótakerfið. Ég las allt saman upp áðan úr ræðustólnum sem stendur í tvíhöfða skýrslunni um hagkvæmni kvótakerfisins og það var ekki meira að vöxtum en þetta. Það er ekki vegna þess að þeir ágætu menn sem sömdu þá skýrslu hafi ekki viljað reyna, það er bara vegna þess að þeir höfðu engan rökstuðning, þeir höfðu engar tölur til að byggja á. Tölurnar sem þeir fundu sneru öfugt. Ef þeir hefðu birt tölur um nýtingu á vélarafli, á olíu, um veiði á dag eða veiði á togtíma, þá hefðu þær tölur allar vitnað gegn kvótakerfinu en ekki með því. Það er þessi vandi sem menn stóðu frammi fyrir. En hæstv. sjútvrh. mætir í ræðustólinn í hvert einasta skipti sem tækifæri gefst og fullyrðir að hagkvæmni kvótakerfisins sé algjörlega ótvíræð. En það eru bara fullyrðingar, það fylgir ekki með neins konar rökstuðningur.