Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 23:24:49 (5533)


[23:24]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það á kannski varla heima undir andsvari en mér þykir samt rétt að nota þann tíma til þess að svara hv. þm. Ég vil fyrst segja það að fskj. 1, sem fylgir þessu frv., er samþykkt ríkisstjórnarinnar og á þeirri samþykkt byggir frv. Þingflokkar beggja stjórnarflokkanna hafa samþykkt það sem stjórnarfrumvarp og ég veit ekki betur en það njóti stuðnings allra stjórnarþingmanna. Það getur að sjálfsögðu gerst með þetta frv. eins og fleiri stjórnarfrumvörp að það taki einhverjum breytingum í meðferð nefndar á Alþingi. Það er síður en svo að þetta sé heilagur texti en meginstefnan er auðvitað mörkuð í frv. Ég hef ekki heyrt að aðrir þingmenn og reyndar ekki heldur að hv. 3. þm. Suðurl. fari gegn frv. eins og það er þótt ugglaust séu einhverjir þingmenn stjórnarflokkanna sem vilji gera einhverjar smærri breytingar á frv. Það verður bara að koma í ljós þegar nefndin fjallar um málið.
    Það sem er hins vegar alveg ljóst er að það verða ekki meiri fjármunir til ráðstöfunar heldur en þeir sem nefndir eru í frv.