Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 23:27:34 (5535)


[23:27]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það fer varla fram hjá nokkrum manni að þetta er frv. til laga um ráðstafanir til að stuðla að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum í kjölfar samdráttar í þorskafla. Það sem segir í samþykkt ríkisstjórnarinnar í kaflanum um úttekt á öðrum byggðarlögum er það að ríkisstjórnin beinir því til Byggðastofnunar að gera úttekt á stöðum þar sem kunna að vera sambærilegar aðstæður við það sem er á Vestfjörðum. Það tók starfshóp u.þ.b. fjóra mánuði að vinna þessa úttekt á Vestfjörðum. Það var unnið með þeim hætti að atvinnulífið þar var gaumgæfilega kannað og hvað til bragðs ætti að taka. Ég hygg að Byggðastofnun bregðist þannig við að þessi mál verði athuguð. Þau koma síðan þegar úttektin liggur fyrir og þá fyrst verður tekin ákvörðun um það hvað gera skuli.
    Ég tel að í langflestum tilvikum, ef um sambærilegar aðstæður er að ræða, sé hægt að leysa það með öðrum hætti en þeim að taka peninga úr ríkissjóði, t.d. með aðstoð kröfuhafa, lánastofnana og annarra slíkra aðila. Vestfjarðadæmið er það sérstakt, eins og oft hefur verið bent á hér í umræðunum, að þar er spurning um það hvort byggðin stendur eða fellur. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar beindist auðvitað að því að bjarga byggðinni, koma í veg fyrir að fyrirtækin hryndu og þar með atvinnulífið og það yrði til stórfellt atvinnuleysi í framhaldi af því. Þannig að hér er auðvitað um mjög sérstaka fyrirbyggjandi aðgerð að ræða. Hin málin verða að koma upp í fyllingu tímans þegar úttektin liggur fyrir.