Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 23:31:09 (5537)


[23:31]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. 2. þm. Suðurl. minnti á fund sem við þingmenn kjördæmisins áttu með Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja fyrir nokkrum dögum. Það er vissulega rétt að afkoma einstakra útgerða er misjöfn. Þó meðaltalsafkoma í sjávarútveginum sé aðeins yfir núllinu eða horfur séu á því, þá er vandi hjá einstökum útgerðum. En þessar tölur sýna fyrst og fremst að almennu rekstrarskilyrðin eru viðunandi. Varðandi það hvort tilefni er til aðgerða fyrir önnur kjördæmi er ekkert hægt að segja fyrir um fyrr en Byggðastofnun hefur lokið sínum athgunum, en þær tölur sem við höfum í höndunum í dag segja okkur að hráefni sem hefur verið landað hefur minnkað að meðaltali frá 1992 til 1994 um 2,04%. Af því að hv. þm. minntist á Suðurlandskjördæmi, þá hefur það minnkað í því kjördæmi nákvæmlega jafnmikið og meðaltalið. Á Vestfjörðum hefur hins vegar landað hráefni minnkað um 9,46% og það kjördæmi sker sig algerlega úr. Önnur kjördæmi eru annaðhvort með viðbót eða nálægt landsmeðaltali utan Austfirðir þar sem minnkun á lönduðum afla er 5,36%. Þar hefur aftur á móti afkoman verið viðunandi því þar hefur verið hagnaður á undanförnum árum og horfur á hagnaði verulega umfram landsmeðaltal á þessu ári. Eins er það á Suðurlandi að þar eru horfur á hagnaði á þessu ári verulega umfram landsmeðaltalið. Þetta eru þær upplýsingar sem við höfum í höndum í dag.