Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 23:38:14 (5541)


[23:38]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að nefna örfá atriði sem hafa komið upp í umræðunum. Í fyrsta lagi þá kom það fram í máli hv. 9. þm. Reykv. að í raun væri ekkert skilyrði sett í lagafrv. um að fyrirtækin sem í hlut ættu tryggðu atvinnu. Af þessu tilefni vil ég að það komi hér skýrt fram að auðvitað er gert ráð fyrir því að þau fyrirtæki sem fá víkjandi lán starfi áfram og veiti þess vegna fólki vinnu. Þetta er fyrirbyggjandi aðgerð eins og margoft hefur komið fram.
    Það er auðvitað spurt að því eins og oft áður hvers vegna ekki eigi að veita öðrum víkjandi lán, þeim sem hafa sýnt ráðdeild og fyrirhyggju. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi þetta og taldi að það væri verið að refsa fyrirtækjum, vel reknum fyrirtækjum, með því að veita þeim ekki lán. Þetta er auðvitað ávallt spurning. En í þessu, nú eins og áður, verður að gæta þess að ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin fer út í þessar aðgerðir er fyrst og fremst sú að það má búast við því vegna þorskbrests að sum fyrirtæki verði hreinlega að gefast upp og þá gerist það mjög fljótt þar sem atvinnulíf er einhæft, og ég veit að hv. þm. þekkir það mjög vel á Vestfjörðum, að fyrirtæki innan um, jafnvel þótt vel rekin séu, eiga mjög erfitt með að lifa af þegar allri þjónustu sleppir. Þess vegna töldum við réttlætanlegt að fara þá leið sem farin er hér og höfum margoft fært rök fyrir því. Við lítum á þetta sem byggðaframlag til að styrkja byggðina, til að nýta samgöngurnar, til að stækka þjónustusvæðin og til að koma í veg fyrir að tímabundinn þorskbrestur leiði til þess að byggðin leggist af og þá jafnt vel rekin fyrirtæki sem skila ágóða og hin.
    Margir hv. ræðumenn ræddu hér um það hvort það væru eðlileg skilyrði sem sett væru vegna sameiningar sveitarstjórna annars vegar og sameiningar fyrirtækja hins vegar. Um þetta má að sjálfsögðu deila. Þessi leið var valin af ýmsum ástæðum. Við teljum, sem stöndum að þessu frv., að það sé rétt sem fram hefur komið hér í umræðum að vestfirsk fyrirtæki hafi brugðist síðar við en ella til þess að takast á við þann vanda sem fyrirtæki standa frammi fyrir nú á dögum. Þessi aðgerð á þess vegna að hvetja fyrirtækin til aðgerða og hvetja sveitarfélögin til að grípa jafnframt til þeirra aðgerða sem duga til þess að þjónustusvæðin geti stækkað, atvinnusvæðin geti stækkað, til að nýta samgöngur, eins og ég hef áður sagt. Ríkisvaldið sér hag sinn í þessu. Það skal m.a. bent á það að á Vestfjörðum eru sjálfsagt 15--20 hafnir. Með því að stækka sveitarfélögin þegar samgöngur batna í landi þá sér ríkisvaldið fram á það að geta sparað í hafnargerð og geta sparað í framlögum til sveitarstjórna. Þess vegna er verið að þvinga fram, við skulum bara orða það eins og það er, að þvinga fram ákveðið hátterni, ákveðna breytni, af því að ríkisvaldið telur sig geta sparað með þeim hætti. Það sem skiptir öllu máli er að við höfum aðeins þessar 300 millj. Reyndar hefur ríkissjóður engum fjármunum úr að spila því auðvitað er ríkissjóður rekinn með halla og ríkið er að safna skuldum. En við teljum það réttlætanlegt og það sé ódýrara að grípa til þessara aðgerða nú til að koma í veg fyrir að stórslys gerist ef illa færi.
    Ég get ekki lýst hvernig útfærslan verður á þessum aðgerðum frekar en segir í lagafrv. Ég heyrði í máli hv. þm. Ragnars Arnalds að hann taldi lagatextann heldur bágborinn. Það má vel vera að það sé hægt að laga hann. Einfaldast hefði auðvitað verið fyrir ríkisstjórnina að afla heimildar hjá hv. Alþingi um að fá 300 millj. kr. framlag til að veita til Vestfjarða, eins og stundum er gert í 6. gr. fjárlaga. Það hefði verið einfalt og síðan hefði ríkisstjórnin getað moðað úr þessum peningum. Það var ákveðið að fara þessa

leið til að gefa mjög sterklega til kynna með tiltölulega niðurnjörfuðum hætti hvernig ætti að nýta þessa peninga. Það var tilgangurinn. Síðan geta menn auðvitað lagað orðalagið til og frá til að gera textann nákvæmari og ég vænti þess að ágætir lögfræðingar úr hópi þingmanna, eins og t.d. hv. þm. Ragnar Arnalds, hjálpi okkur við að koma þessum texta þannig heim og saman að hann skiljist og það sé auðvelt að fara eftir honum. Ég held hins vegar að það sé tiltölulega auðvelt að skilja textann ef menn vilja skilja hann ( Gripið fram í: Er það ekki dálítið seint?) Nei, það er ekki of seint vegna þess að þetta er frv. og það á eftir að fara í gegnum þrjár umræður, þetta er bara sú fyrsta, þannig að það er nægur tími til að laga textann fyrir þá sem hafa svo góðan vilja að koma þessu í betra horf. Við getum alltaf tekið við góðum hugmyndum um betri texta. Það er engin skömm að því að laga það sem gott er, gott getur batnað. Það sem skiptir hins vegar máli enn og aftur er það að ef horfið verður frá skilyrðunum sem sett eru í frv. þá verður minna til skiptanna og þá er hætta á því að þessir fjármunir komi ekki að eins góðum notum og ella.
    Ég geri mér grein fyrir því að við lögum ekki stöðu allra fyrirtækja á Vestfjörðum. Ég hygg að sjávarútvegsfyrirtækin á Vestfjörðum skuldi kannski, ég giska á 5--7 milljarða kr., ég gæti ímyndað mér að skuldir allra fyrirtækjanna séu einhvers staðar á því bili. Auðvitað er ekki verið að koma til móts við fyrirtækin með þeim hætti að þau verði skuldlaus. Þetta er eins og dropi í hafið. En þetta er samt sem áður mikil hjálp þar sem byggðirnar standa veikast og verst og þá er ég fyrst og fremst að tala um byggðir á suðurfjörðunum, frá Arnarfirði og suður á Patreksfjörð. Þar ætti þetta að geta komið að verulegu gagni og reyndar fyrir suma aðra staði líka, þótt ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þetta læknar ekki öll sár og tekur ekki á öllum meinum.
    Virðulegi forseti. Það hefur líka verið rætt um það og kom fram í máli manna að þetta væri miðstýring og nú ætluðu ráðuneytin að stjórna því hvernig þessum peningum væri deilt út. Það var ekki hugmyndin að fara með þetta í gegnum Byggðastofnun, sem að áliti þeirra sem töluðu á þann veg var allt annað en miðstýring og miklu betri kostur. Ég vil einungis segja að ég hef haft það í huga að sá aðili sem kemur frá fjmrn. sé fyrst og fremst aðili sem þekkir vel til reksturs, því ég tel að það séu slíkir menn sem geti gert best gagn í samstarfi við eigendur fyrirtækjanna, stjórnendur þeirra, við fulltrúa lánastofnana og annarra kröfuhafa til að bæta rekstur og bæta stöðu þeirra fyrirtækja sem um sárt eiga að binda á Vestfjörðum nú vegna þess að þau hafa minni þorskveiðiheimildir en áður.
    Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að fara frekar út í smáatriði. Þetta er fyrsta umræða málsins. Nefndin á eftir að ræða málið og ég vænti þess að hún kynni sér það frá öllum hliðum og ljúki sínu starfi sem allra fyrst, því auðvitað er beðið eftir því hjá þeim sem búa á Vestfjörðum og bíða eftir því að geta fengið víkjandi lán í fyrirtæki sín. Það er beðið eftir því að Alþingi sýni í verki að það sé tilbúið til að samþykkja þessar tillögur. Ég þykist skilja það af þessum umræðum að þingmenn Framsfl. séu tilbúnir til að styðja í meginatriðum frv. sem hér er til skoðunar og reyndar ýmsir aðrir þingmenn. En mér finnst enn vanta á að frv. njóti fulls stuðnings allra stjórnmálaflokkanna á Alþingi og þar á meðal Alþb.