Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 23:48:19 (5542)


[23:48]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er augljóst mál að Alþb. á ekki gott með að styðja frv. sem svona er úr garði gert, eins og það er í reynd, og þvælir saman ólíkum hlutum eins og sameiningu sveitarfélaga og stuðningi við sjávarútvegsfyrirtæki. Þannig að hér þarf betur að gera ef ríkisstjórnin vill afla meiri stuðnings en hún telur sig hafa fengið fram í þessari umræðu.
    En það sem ég vildi kannski leggja áherslu á svona undir lok umræðunnar --- ég hygg að við séum búin að þrautræða málið í þessari umræðu og komumst ekki nær hvor öðrum í málinu, ég og hæstv. fjmrh. --- er að mér sýnist að málið eigi að fara til hv. allshn. Það kom fram í máli hæstv. fjmrh. hér áðan að hann liti á þetta mál sem byggðaframlag. Sem byggðaframlag. Og þegar um er að ræða þingmál sem í eðli sínu er byggðaframlag þá hlýtur það að eiga að fara til allshn. Það kom einnig fram í máli hæstv. sjútvrh. hér fyrr í dag að hann taldi þetta skýrt og klárlega vera byggðamál. Hann sagði: Þetta er byggðamál en ekki sjávarútvegsmál. Þannig að tveir hæstv. ráðherrar hafa kveðið upp úr með það að mál það sem starfandi forsrh. flytur er í sjálfu sér eðlilega byggðamál og ætti að fara til hv. allshn. Ég vildi koma þessari skoðun minni á framfæri við virðulegan forseta þannig að það lægi fyrir þegar menn afgreiða málið, væntanlega á morgun, til hvaða nefndar það eigi að fara, að það sjónarmið hafi komið fram með gildum rökum að málið eigi að fara til allshn. fremur en efh.- og viðskn.