Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 23:50:22 (5543)


[23:50]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér þótti athyglivert að heyra að talsmaður Alþb. í þessari umræðu lýsir því yfir að hann treysti sér ekki til að styðja þetta frv. Ég verð að segja að það veldur mér nokkrum vonbrigðum því ég hélt satt að segja að það væri nokkur skilningur á sérstöðu byggðanna á Vestfjörðum og þess vegna gæti Alþb. stutt frv. þótt ég skilji það að sjálfsögðu að menn vildu sjá einhverjar breytingar á því þá væri

meginstefnan í því góð.
    Varðandi það hvert senda skuli málið vil ég eingöngu segja að þetta frv. er flutt af mér sem fjmrh. en ekki forsrh. og spurningin var hvort frv. ætti að fara til fjárln. eða efh.- og viðskn. Ég skal viðurkenna það að ég var í miklum vafa um hvora leiðina ætti að fara og spurði starfsmenn þingsins eins og maður gerir nú stundum þegar maður er í nokkrum vanda með þessi atriði og niðurstaðan varð sú að það væri eðlilegra að senda það til efh.- og viðskn. En í mínum huga er það önnur hvor þessara nefnda sem á að fá málið. Ekkert síður fjárln. en efh.- og viðskn. Ég legg til að málið fari til efh.- og viðskn. en legg jafnframt til, virðulegi forseti, að sú nefnd sendi þetta yfir til fjárlaganefndar þannig að hún geti skoðað málið. Ég sé hins vegar ekki að málið eigi erindi til allshn., jafnvel þótt allshn. fjalli um málefni Byggðastofnunar að mér skilst. Hér er fyrst og fremst verið að fjalla um fjárgreiðslur úr ríkissjóði og hvernig nota eigi þær fjárheimildir.