Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 23:57:48 (5547)


[23:57]
     Pétur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Orðalagið ,,þvingun`` var ekki frá mér komið heldur hæstv. ráðherranum þegar hann talaði áðan. Ef ég man rétt þá nefndi hann að hér væri vissulega um þvingun að ræða. Og hann sagði það vera til hagsbóta fyrir ríkissjóð þannig að orðalagið er ráðherrans hæstv. en ekki þess sem hér talar.
    Ég er litlu nær um aðstoð við þessi einstöku byggðarlög því að þau svör hafa ekki gefist en ég vil alls ekki undanskilja Reykhólahrepp þó að hæstv. ráðherra hafi gert það því hér er m.a. upphæð sem veitt er til þróunaraðstoðar og það er viðurkennt að þar er fyrirtæki, Þörungavinnslan, sem er að afla sér markaðar og þarf á þróunaraðstoð að halda. Mér finnst ekkert óeðlilegt að hún a.m.k. sé ekki útilokuð frá aðstoð á þessu stigi málsins og sé ekki nokkra ástæðu til þess. En hvað snertir hinar spurningarnar þá tel ég ekki að ég hafi fengið í rauninni nein svör við því nema það kom þarna fram þessi hótun sem ég nefndi í dag. Tálknfirðingar geta átt von á að fá aðstoð ef þeir verða svo hyggnir að sameinast. Sem sagt, þeir sjá sína sæng út breidda, hótunin stendur, þvingunin stendur. Ef þið sameinist þá getið þið átt von á aðstoð en ef þið fellið sameininguna þá ætlar ríkisvaldið að láta ykkur vera úti í kuldanum og þið eigið ekki rétt á sambærilegri aðstoð og þeir sem nálægir ykkur standa.