Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 23:59:38 (5548)


[23:59]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hef svo sem litlu við að bæta það sem áður hefur verið sagt. Ég get ekki og vil ekki á þessu stigi málsins vera að nefna til einstök sveitarfélög. Það hlýtur starfshópurinn að þurfa að gera þegar hann tekur við lögunum á sínum tíma og óviðeigandi að ég sé að segja það hér nákvæmlega fyrir fram hvert þessir peningar renna því það er ekki heldur víst að þetta renni til fyrirtækja sem eru að sameinast. Það er ekki heldur víst að þetta renni til byggðarlaga sem eru að sameinast. Það fer allt eftir því hverjir sækja um. Frumkvæðið er auðvitað heimamanna, því verðum við líka að átta okkur á.
    Ég skal ekki fortaka neitt um Þörungavinnsluna, ég mundi nú satt að segja ekki eftir henni í svipinn. Það getur vel verið að hún passi inn í þetta.
    Ég skil ekki af hverju menn eru að tala um hótun í þessu sambandi, ég veit nokkurn veginn af hverju og ég veit að hv. þm. Pétur Bjarnason veit það líka. Tálknfirðingar voru auðvitað efins í að sameinast nágrannabyggðarlögunum einfaldlega vegna þess að sveitarstjórnirnar þar skulduðu heilmikla fjármuni. Það eru ekki þessar 300 millj. sem fara til fyrirtækjanna sem munu hvetja þá til sameiningar. Ég er hins vegar nokkuð viss um að Tálknfirðingar munu líta til fjármagnsins sem kemur í gegnum Jöfnunarsjóð vegna þess að þá fjármuni á að veita til sveitarfélaganna og þar er alveg ljóst að Patreksfjörður og Bíldudalur munu áreiðanlega njóta einhvers af fjármagninu og það getur haft þýðingu fyrir Tálknfirðingana vilji þeir sameinast nágrannabyggðarlögunum. Ef það gerist ekki þá hafa þeir tekið sína ákvörðun og ráða því og telja sig þá betur setta utan við þetta en innan.