Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 00:02:48 (5550)


[00:02]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Sú var tíðin að ég var skrifari hjá hv. þm., 2. þm. Suðurl., þegar hann var forseti sameinaðs þings fyrir allmörgum árum síðan. Ég man eftir því vel að hv. þm. var vel að sér í þingsköpum Alþingis. Ég held að það sé nokkuð langt seilst núna að nefna það til sögunnar að þetta mál eigi heima í þessari tilteknu nefnd, allshn., vegna þess að þetta sé hreint byggðamál. Það eru svo mörg mál sem mætti kalla byggðamál, það eru svo mörg mál sem auðvitað snerta allar byggðirnar og snerta byggðir hér á landi, þannig að við getum teygt það hugtak til og frá. Ég held og ég er sammála þeim sem þekkja þingsköp ærið vel að spurningin er sú hvort þetta mál eigi að lenda í fjárln. eða efh.- og viðskn. Ég tel að það sé eðlilegt að vísa málinu til efh.- og viðskn. eins og margoft hefur verið gert með þessi mál og síðan getur hún

vísað málinu áfram, til fjárln. tel ég eðlilegt og til allshn. ef henni býður svo við að horfa. Ég vil svo að lokum minna hv. þm. og fyrrv. forseta sameinaðs þings á að það er ekki í kot vísað því ég veit ekki betur en formaður þeirrar ágætu nefndar, efh.- og viðskn., sé hv. þm. Halldór Ásgrímsson, varaformaður Framsfl. Og ég býst ekki við öðru en því að hv. þm. treysti varaformanni Framsfl. fyrir þessu mikilvæga máli. ( StG: Það er ekki spurningin um það.)
    ( Forseti (VS) : Forseti telur að þetta sé umræða sem eigi ekki að fara fram úr forsetastól heldur sé hægt að ræða það utan fundar til hvaða nefndar verður gerð tillaga um að senda þetta mál. Raunar er það síðan að lokum ákvörðun þingsins. Forseti óskar eindregið eftir því að þessari umræðu geti lokið sem allra fyrst.)