Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 00:08:47 (5555)


[00:08]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það hefði nú e.t.v. getað fallið undir andsvör hér áðan við ræðu hæstv. fjmrh. þau fáu orð sem ég ætla að koma á framfæri. Það er vegna þess að hæstv. ráðherra viðurkenndi það áðan að hér væri um vissar þvingunaraðgerðir að ræða. Ég tel það mjög merkilegt að hann skuli hafa viðurkennt það hér í umræðunni þar sem ég nefndi það í fyrri ræðu minni í dag að ég teldi hér vera um þvingunaraðgerðir að ræða hvað varðaði sameiningu sveitarfélaga. Mér finnst rétt að minna á í því sambandi þó hæstv. félmrh. sé trúlega ekki í húsinu lengur, alla vega ekki sjáanlegur, þá vil ég minna á það sem kom fram þegar verið var að ræða um sameiningu sveitarfélaga. Það frv. var samþykkt hér á síðasta þingi og kosið um sameiningu sveitarfélaga 20. nóv. sl. og þá var því marglýst yfir af hálfu hæstv. félmrh. að það

mundi ekki koma til lögþvingunar á sameiningu sveitarfélaga. Því var marglýst yfir. Og ráðherrann var sérstaklega spurður að því hvort þau sveitarfélög sem höfnuðu sameiningu í kosningunum 20. nóv. yrðu beitt einhverjum þvingunaraðgerðum. Því var svarað alfarið neitandi. Það yrði ekki um það að ræða. Það kom bæði fram hér í þinginu og eins fram í sjónvarpsþáttum. Mér finnst rétt að vekja athygli á því að hér er komið fram frv. þar sem greinilega á að beita þvingunaraðgerðum. Og það tel ég alls ekki vera gott í þessari umræðu um stækkun og sameiningu sveitarfélaga. Ég held að þetta hafi verið í góðum farvegi og hefði alveg getað haldið þannig áfram og það sé ekki rétt á þessu stigi málsins að blanda þessum tveimur aðgerðum saman. Ég vænti þess þar af leiðandi að þessi ákvæði verði tekin út úr frumvarpinu í vinnslu.