Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 13:39:16 (5560)


[13:39]
     Kristinn H. Gunnarsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Það komu fram tvær tillögur í gær um hvert vísa ætti málinu. Ég lagði til að því yrði vísað til hv. allshn. Það kom fram í máli tveggja hæstv. ráðherra í gær að þeir litu á þetta sem byggðamál. Hæstv. sjútvrh. kom hér upp og sagði: Þetta er byggðamál. Hæstv. fjmrh. kom hér upp og sagði: Við lítum á þetta sem byggðaframlag. Og eftir þessar yfirlýsingar og eðli máls, m.a. það sem stendur í frv., nefni ég sem dæmi það sem kemur fram um starfshópinn, að formann starfshóps þess sem skipa skal á forsrh. að skipa, það segir sína sögu um hvar forræði málsins liggur.
    Ég vil benda mönnum á að það er ekki einhlítt að það eigi að vísa málinu til efh.- og viðskn. eða fjárln. með þeim rökum að um sé að ræða innstreymi eða útstreymi fjár. Í hvaða nefnd ræddu menn málið SR-mjöl? Voru menn ekki að selja eignir ríkissjóðs og fá peninga inn í ríkiskassann? Tóku menn það upp í efh.- og viðskn.? (Gripið fram í.) Var það ekki í sjútvn.? Það hélt ég.