Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 13:40:43 (5561)


[13:40]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um atkvæðagreiðslu) :
    Hæstv. forseti. Ástæðan fyrir því að sala SR-mjöls fór í sjútvn. er að það fyrirtæki heyrir undir sjútvrn. samkvæmt lögum, gerði það á sínum tíma. Sjútvrh. flutti frv.
    Í þessu máli hagar þannig til að það er fjmrh. sem flytur frv., ekki forsrh. Þetta er auðvitað byggðamál í ákveðnum skilningi eins og svo fjölmörg atriði bæði lánsfjárlaga og fjárlaga. Mín skoðun er sú, var það í gær og hefur ekkert breyst, að það sé eðlilegt að málið fari til efh.- og viðskn. en ég vil hér og nú mælast til þess við formann þeirrar ágætu hv. nefndar að málið geti gengið til fjárln. til skoðunar og ef aðrar nefndir eins og allshn. óska eftir því að fá að sjá málið þá er sjálfsagt að verða við því. Býst ég vil að ég tali þar fyrir hönd nefndarmanna efh.- og viðskn.
    Það er spurning í þessu máli hvort þetta eru lán úr ríkissjóði, þetta eru víkjandi lán, gætu þess vegna hátt heima í lánsfjárlögum eða í fjáraukalögum. Ég held að það séu öll rök fyrir því að málið fari til efh.- og viðskn. enda var ég búinn að kanna það hjá hinum vísustu mönnum áður en ég gerði tillögu um það hvert málið færi.