Varnir gegn mengun hafsins

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 13:56:36 (5567)


[13:56]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég sé ástæðu til þess að lýsa ánægju minni með það sem hæstv. utanrrh. sagði að því er varðaði það mál sem hér kom til umræðu í tengslum við þetta mál, þó að það sé ekki beinlínis á því sviði, þá er það þó náskylt eins og hæstv. ráðherra benti á. Ég lýsi ánægju minni með það að íslensk stjórnvöld vilji ganga mjög ákveðið og hart fram að því er varðar þessa endurvinnslu fyrir kjarnorkuúrgang, THORP-endurvinnslustöðina í Sellafield. Ég vil minna á að Írar lýstu því yfir að þeir vildu fara fram á aukafund í Parísarnefndinni svokölluðu og Íslendingar lýstu því yfir eða alla vega kom það fram hjá hæstv. umhvrh. að Íslendingar mundu einnig styðja það að óskað yrði eftir aukafundi í Parísarnefndinni. Ég innti hæstv. forsrh. eftir því í síðustu viku hvort það hefði verið gert formlega af Íslands hálfu og hafði hann ekki svar á reiðum höndum að því er það varðaði. Vil ég því spyrja hæstv. utanrrh. um það hvort ríkisstjórnin hafi formlega farið fram á þennan aukafund í Parísarnefndinni. Það er að mínu mati mjög mikilvægt að það verði gert til þess að ýta á þetta mál og sýna hversu alvarlegum augum við lítum á aukna geislamengun í hafið frá þessu svæði, frá Sellafield. Það getur haft veruleg áhrif á okkar fiskmið og getur einnig haft óbein áhrif hjá okkur að því er varðar sölu á fiski.
    Ég tel mjög gott að hæstv. umhvrh. skuli hafa farið til Bretlands og muni koma á framfæri mótmælum við þessa leyfisveitingu Breta, en það þarf að beita öðrum aðferðum og nota fleiri tækifæri.
    Ég hef minnt á það hér áður að umhverfisráðherrar þriggja Norðurlanda, Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur, sem eru aðilar að Parísarsáttmálanum, gáfu það til kynna í svari sínu á Norðurlandaráðsþingi að ef Ísland og Írland mundu krefjast aukafundar í Parísarnefndinni að þá væri líklegt að þeir mundu styðja það eða það væri a.m.k. erfitt fyrir þá að gera það ekki. Þess vegna finnst mér mikilvægt að Ísland fari fram á þennan fund. Þó að ég telji að það hefði þurft að gera það strax þá er þó betra seint en aldrei.
    Það sem gerði það að verkum að ég kvaddi mér hljóðs í þessu máli var ekki síst það að að því er varðaði þetta mál er lagt til af hálfu utanrrh. að málið fari til utanrmn. Það gildir um fleiri slíka samninga sem eru með þessum hætti að þeir hafa farið til utanrmn. en utanrmn. hefur síðan vísað þeim til hv. umhvn. til umfjöllunar. Það hafa verið þrír samningar nú í vetur sem umhvn. hefur varið nokkrum tíma í að fara yfir og þess vegna velti ég því fyrir mér hvers vegna mál eins og þetta, sem er beinlínis mjög afmarkað umhverfismál en ekki utanríkismál með hefðbundnum hætti, hvort ekki sé réttara að vísa málum sem þessum til umhvn. Þá er frekar hægt að fá álit utanrmn. á því þegar um er að ræða mál eins og þetta.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að gera tillögu um aðra nefnd þar sem hæstv. utanrrh. hefur nú gert tillögu um utanrmn. en ég vil varpa þessu hér fram til umhugsunar. Mér finnst mjög óeðlilegt að það skuli ekki vera fagnefndin sem fjallar um samninga af þessu tagi sem eru beinlínis á ákveðnu fagsviði. Þetta vildi ég nú segja svona til umhugsunar að því er varðaði samninga eins og þennan.