Varnir gegn mengun hafsins

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 14:01:32 (5568)


[14:01]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér skilst að ákvörðun um það af hálfu íslenskra stjórnvalda eða af hálfu hæstv. umhvrh. um að styðja kröfu um aukafund innan ramma Parísarsáttmálans, kröfu sem Írar hafa sett fram, bíði heimkomu hans og niðurstöðu viðræðna við breska umhverfisráðherrann. Mér hefur skilist að hæstv. umhvrh. vilji fyrst láta á það reyna hvort starfsbræður hans eða fulltrúar stjórnvalda í Bretlandi taka tillit til krafna og röksemda sem hann hefur fram að færa í þeim tvíhliða viðræðum.

    Að því er varðar vistun málsins í nefnd, þá er það svo að hér er um að ræða staðfestingu á alþjóðasamningi og samkvæmt hefð og reglum er slíkum sáttmálum vísað til hæstv. utanrmn. Þess eru fjölmörg dæmi að einstök fagráðuneyti fjalli um að málasvið sem slíkir samningar taka til. Engu að síður er þeim vísað til utanrmn. en sú ábending sem fram kom að efnisleg umræða fari fram í umhvn. er engu að síður fullgild og það er þá í höndum hv. formanns utanrmn. að viðhafa þau vinnubrögð.