Héraðsskógar

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 14:13:47 (5573)


[14:13]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því að þetta frv. er komið fram. Eins og kom fram í máli hæstv. landbrh. hefur það átt nokkurn aðdraganda. Það kom reyndar fram hér í fyrirspurnatíma nýlega að hæstv. landbrh. hafi þurft að glíma við Alþfl. í þessu máli eins og fleiri málum sem má flokka undir landbúnaðarstarfsemi. Alþfl. hefur legið á þessu máli ef svo má að orði komast. En það er fagnaðarefni að þetta er komið fram sem stjórnarfrumvarp. Hér er um að ræða endurskoðun laga um Héraðsskóga. Það verkefni hefur farið mjög vel af stað og verið þýðingarmikið fyrir atvinnulífið á Fljótsdalshéraði. Eftir því sem þeir vísu menn segja sem þar eru í forsvari hefur það tæknilega, ef svo má að orði komast um ræktun, uppfyllt vonir manna.
    Þetta frv. um að taka aukinn þátt í skógrækt á eyðijörðum er ekki síður umhverfismál heldur en atvinnumál. Það er nú þannig, og það geta menn sannfærst um ef þeir skoða undirbúning skógræktar eins og hann er á nútímavísu og eins og er hjá Héraðsskógum, þá er ekki sama hvar skógurinn er settur í landið. Það er ekki sama hvernig hann situr í landinu og skógur getur jafnvel verið til lýta ef ósmekklega er frá honum gengið. Það er nauðsynlegt að vanda undirbúning sem allra best þannig að skógurinn falli vel að landinu, verði sem samfelldastur og að þar séu ekki eyður í hann. Önnur rök í þessu máli koma fram í greinargerðinni, t.d. þær skemmdir sem eru í skógarjöðrum og þau veðurfarslegu áhrif sem skógurinn hefur.
    Ég hef oft sagt frá því að ég var uppalinn í skóglausu héraði en flutti í hérað þar sem voru skógar og þar sem skógar voru að vaxa, þar sem skilyrðin eru best á þessu landi og það er mikil lífsreynsla

að verða þeirrar reynslu aðnjótandi. Ekki síður að finna hvaða áhrif skógurinn, þegar hann vex, hefur á veðurfarið og loftslagið í þeim byggðarlögum þar sem skógur er mikill.
    Ég vona að þó að aðdragandinn að þessu frv. hafi verið nokkuð langur þá eigi það greiða leið í gegnum þingið. Þetta er ekki flókið mál í sjálfu sér og það kemur einnig fram að hér er ekki um kostnaðarauka að ræða miðað við þau áform sem nú eru uppi.