Héraðsskógar

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 14:29:09 (5576)


[14:29]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það kemur nú margt fróðlegt fram í þessum umræðum. Þetta síðasta er auðvitað athyglisvert og jákvætt að heyra af verkaskiptingu þeirra hæstv. umhvrh. og landbrh. Ég get tekið undir það að í fljótu bragði sýnist mér hún vera skynsamleg. Ég hef af því reynslu að núv. hæstv. landbrh. er laginn við að slíta veislum og ráðstefnum og sjálfsagt ferst hæstv. umhvrh. ekkert tiltakanlega óhönduglega að setja þær.
    Ég fagna því að þetta litla frv. er fram komið og þó fyrr hefði verið. Reyndar vekur það nokkra umhugsun hversu lengi það hefur verið í meðförum miðað við lögbundin ákvæði um endurskoðun laganna um Héraðsskóga en þannig var frá þeim gengið á sínum tíma á útmánuðum 1991 að um það varð samkomulag að þau skyldu endurskoðuð eða yfirfarin og frv. lagt fyrir nýtt þing þá haustið 1992 ef menn sæju ástæðu til að gera á þeim einhverjar breytingar. Sú var ástæðan að menn töldu þá og telja vonandi enn að það væri afar mikilvægt að skapa traust á þessari framkvæmd þar sem um langtímaverkefni, margra áratuga verkefni og skuldbindingar er að ræða og nauðsynlegt að þátttakendurnir gætu treyst því með óyggjandi hætti að þeir hefðu traustan lagagrundvöll og efnisgrundvöll til að starfa á. Þess vegna var ákveðið að draga það ekki lengi ef menn sæju ástæðu til að endurskoða þessi ákvæði eitthvað frá því sem lagt var upp með vorið 1991. Reyndar rifjast ýmislegt upp fyrir mér undir umræðunni frá þeim mánuðum og árum þegar verið var að koma þessu verkefni af stað og ætli ég verði bara ekki að segja það eins og er að ég get alveg getið mér til um það hvað hefur þvælst fyrir hæstv. landbrh. í þessu efni og miða þá við mína eigin reynslu. Ég man vel eftir nokkrum sviptingum hér þegar verið var að berjast fyrir fyrstu fjárveitingunum til Héraðsskóga á árunum 1989 og 1990 og koma þessum lögum í gegnum ríkisstjórn og Alþingi veturinn 1990/1991. En eigum við ekki bara í þeim bróðurlega anda sem hér ríkir að finna á þessu þá skýringu að samstarfsflokkur hæstv. landbrh. sé lengi að hugsa og hann hafi verið í eitt og hálft ár að melta þessa breytingu að hækka í vissum tilvikum styrkina til eyðijarða úr 75% í 97% þegar það er skynsamlegt af skógræktarástæðum. Og þá er það bara þannig að það hefur tekið Alþfl. eitt og hálft ár að hugsa þetta atriði. En allt er gott þegar endirinn er góður og vonandi tekst samstaða um að gera þessar breytingar, ef breytingar skyldi kalla. Mér er nær að kalla þetta minni háttar lagfæringu en tek það fram í leiðinni að ég styð hana. Út af fyrir sig er það réttmæt ábending eða réttmæt forsenda breytinga að láta það ekki beinlínis bitna á verkefninu sem slíku og samfellunni í því að í einstökum tilvikum geta eyðijarðir lent inn á skógræktarsvæðið.
    Að öðru leyti er í sjálfu sér ekki mikið um þetta að segja nema að það er ágætt að fá þetta tækifæri til að fagna því að ég held að þetta skógræktarátak, Héraðsskógaverkefnið, hafi í flestum tilfellum, flestum greinum uppfyllt vonir manna og væntingar um það að menn gætu rennt úr vör einu stóru, samfelldu og myndarlegu skógræktarátaki í alvöru, því sem ég hef leyft mér að kalla kannski fyrsta virkilega alvöru nytjaskógaverkefnið á Íslandi og það þarf ekkert að fjölyrða um það hversu mikilvægt er að það takist sæmilega. Ég fullyrði að svo hafi verið gert og það er mikið fagnaðarefni. Það er enginn vafi á því í mínum huga að þetta var rétt áhersla, enda studd bæði af fagmönnum á þessu sviði og öðrum þeim sem um þetta fjölluðu, lærðum og leikum. Nefnd sem að þessu vann á undirbúningsstigi með fulltrúum heimamanna, skógræktarmanna og stjórnvalda varð einróma sammála um að það væri skynsamlegt að velja sér eitt svæði og gera þar myndarlegt átak og láta þannig á það reyna hvort hægt væri að hrinda úr vör alvöru nytjaskógræktarverkefni í stórum stíl. Það gefur auga leið að í fyllingu tímans verður það hagstætt að ýmsu leyti að hafa skógræktina á einu tilteknu svæði svo umfangsmikla. Það skapar m.a. möguleika á arðbærum atvinnurekstri varðandi úrvinnslu sem ella kynni að reynast torvelt að skapa ef ræktunin væri of dreifð.
    Að lokum vil ég segja það að í ljósi þessrar jákvæðu reynslu og með tilvísan til atvinnuaðstæðna og ýmissa annarra þátta sem óþarft er að fjölyrða um þá er ég þeirrar skoðunar að nú sé tímabært að velta því fyrir sér hvort ekki beri að undirbúa sambærileg átök í öðrum héruðum, einu eða fleirum til viðbótar, þar sem skógræktarskilyrðin eru álitlegust hér á landi og þá eigi að nota þá reynslu og það módel sem þarna hefur verið prufukeyrt og gefið góða raun og menn hafa væntanlega lært ýmislegt af til að styðjast við. Það mega ekki verða bara orðin tóm að menn ætli sér að gera stóra hluti í skógrækt og landgræðslu á Íslandi. Ég held að sú reynsla, sem fengin er af Héraðsskógaverkefninu, almennt jákvæð niðurstaða sem af því hefur fengist, mikil þátttaka og mikill áhugi heimamanna, eigi að gefa mönnum tilefni til að sækja enn frekar fram á þessu sviði í öðrum héruðum eða öðrum landshlutum þar sem skógræktarskilyrðin eru álitlegust.
    Ég treysti því að það vefjist svo ekki fyrir mönnum að afgreiða þessa breytingu frá þinginu án þess að hún kannski skipti neinum sköpum um framgang þessa verkefnis þá er sjálfsagt að gera hana úr því að hún er hér lögð til, þó aðalatriðið sé auðvitað að menn standi þétt saman og þétt á bak við þetta verkefni og leggi því til þá fjármuni og þann pólitíska stuðning sem það þarf á að halda til þess að dafna hér eftir sem hingað til.