Héraðsskógar

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 14:36:12 (5577)


[14:36]
     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ekki get ég setið hér, þingflokksformaður, og látið því ósvarað að þingflokkur minn sé svo lengi að hugsa að hann noti eitt og hálft ár á eina setningu og vil því vísa þeim ummælum fullkomlega á bug. Ég vil líka að það komi hér fram að það er fullur stuðningur við þá tillögu að ríkissjóður greiði 97% kostnaðar við skógrækt á jörðum í ábúð og á eyðijörðum sem að mati Skógræktar ríkisins er nauðsynlegt frá skógræktarlegu sjónarmiði og frá hagsmunum skógræktar á aðlægum jörðum að fylgja þeim í ræktun.
    Þetta er fullkomlega stutt af þingflokki okkar. Hitt er annað mál að vissulega dróst í vetur að þetta frv. kæmi fram. Það er miklu fremur að það hafi verið misskilningur um hvar frv. væri óafgreitt í ríkisstjórn eða þingflokki. Það er mál sem við landbrh. höfum leitt vel til lykta. Þetta mál er komið fram, við það er góður stuðningur og ég hef ekki nokkrar efasemdir um það að þetta mál náist tímanlega fram í öflugum höndum formanns landbn. á þessu vori.
    Annars um þetta með hugsanirnar, auðvitað er það svo að við í þingflokki Alþfl. erum eins og fólk er flest, sumir eru fljótir og snöggir að hugsa, aðrir eru eitthvað seinni. Stundum er meira að segja talað um að einhver okkar séu fremur fljót og jafnvel örlítið á undan öðrum. En það eru vangaveltur sem ég mundi frekar taka upp í góðu rabbi í kaffistofunni.