Héraðsskógar

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 14:38:00 (5578)


[14:38]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér er ljúft og skylt að draga tilgátu mína til baka um að þetta hafi stafað af því að Alþfl. hafi verið að hugsa þetta litla atriði í eitt og hálft ár og fagna stuðningi þingflokks Alþfl. við þetta mál eins og annarra. Hins vegar þarf það í sjálfu sér ekki að vera í neikvæðri merkingu sagt að það geti tekið nokkurn tíma fyrir menn að hugsa. Það geta legið ýmsar ástæður, þar á meðal líffræðilegar, að baki því og þá minnist ég þess og það rifjast upp fyrir mér þegar ég var að læra steingervingafræði og fornlífisfræði fyrr á þessari öld, ef svo má að orði komast, þá var stærsta risaeðlan sem fornleifafræðingar þekktu enn á þeim tíma brontosaurus heitinn og hann var allmikið stykki, 40 tonn eða svo, og það var sett fram sú tilgáta af taugalífeðlisfræðingi á þeim tíma sem hafði grúskað dálítið í gangverkinu í brontosaurusi heitnum að hann hefði verið það hæggengur í gangverkinu og hugsuninni að það mundi sennilega hafa tekið hann um klukkustund að uppgötva það ef ráneðla hefði bitið hann í halann. Skilaboðin voru um klukkstund á leiðinni upp í heila og í úrvinnslu þar. Það gefur auðvitað auga leið að svona upp á afkomumöguleika tegundarinnar þá var þetta ekki mjög heppilegt enda dó hann út eins og kunnugt er, brontosaurus, hvort sem það var bara af þessum völdum eða öðrum. Þetta hefur sjálfsagt verið óhaglegt fyrir skepnuna að átta sig stundum ekki á því fyrr en klukkutíma seinna að ráneðla, t.d. tyrannosaurus rex var farin að naga á henni halann þannig að auðvitað er það líka kostur í sjálfu sér að vera fljótur að hugsa.

    En auðvitað á ekki að vera með svona strákslegan málflutning hér, ég tek það aftur fram ( Gripið fram í: Síst af öllu í tengslum við Alþfl.) og síst af öllu í tengslum við Alþfl. er hér sagt úti í sal og skal undir það tekið. En ég fagna stuðningi Alþfl. við þetta mál.