Héraðsskógar

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 14:43:32 (5582)


[14:43]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst þakka þær góðu undirtektir sem þetta frv. hefur fengið. Ég heyri að þess er að vænta að það muni hljóta skjóta og góða afgreiðslu sem ég er þakklátur fyrir. Það er rétt að frv. er ekki mikið í sniðum en samt sem áður er talið nauðsynlegt að flytja það eins og hér hefur komið fram, bæði af umhverfislegum og faglegum ástæðum.
    Varðandi fyrirspurn hv. 18. þm. Reykv. þá er rétt að minna á að lögin um Héraðsskóga eru sett til þess að stuðla að ræktun nytjaskóga á Fljótsdalshéraði og umhirðu þess skóglendis sem þar er fyrir og treysta með því byggð og efla atvinnulíf á Héraði. Héraðsskógar merkja í lögum þessum sjálfstætt skógræktarverkefni um ræktun nytjaskóga á jörðum á Fljótsdalshéraði samkvæmt sérstakri áætlun. Þannig að hér er ekki almennt um heimild að ræða sem tekur til bændaskóga í þeirri merkingu orðsins heldur er þetta frv. bundið við skógræktarátakið á Héraði.