Lax- og silungsveiði

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 14:54:20 (5584)


[14:54]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég fagna því nú að sjá þetta frv. lagt fram. Ég hef vitað af því að um langa hríð hefur farið fram vinna í þessu máli og tímarnir hafa mikið breyst frá því um 1970 þannig að ég held að það sé mikilvægt þó að hér komi fram í skýringum að þetta mál hafi ekki komið inn á Alþingi síðan 1983, þá minnir mig að einhvern tíma á tímabilinu fyrir 1990 hafi frv. í þessum dúr verið á borðum þingmanna og ekki náð fram að ganga.
    Það sem kannski ber að sakna er hvað málið kemur seint á þessu þingi. Við því er ekkert að gera. Landbn. hlýtur að gefa sér ærlegan tíma eftir páska til að vinna í þessu máli. Það eru að vísu fáir dagar sem menn hafa þá til stefnu. en mér sýnist svona fljótt á litið að málið sé nokkuð vel unnið þó að hér séu kannski ýmis atriði sem ég mundi hafa fyrirvara um en geri það þá í nefndinni. Ég sé það hér að ríkissjóður er að draga sig út úr öllu veiðieftirlilti við ár og þar hefur það verið svo að ríkissjóður hefur greitt helming. Nú kemur það hér fram að þetta eigi að spara ríkissjóði 1--2 milljónir. Ég velti því auðvitað fyrir mér hvort þetta gæti verið rétt tala, hæstv. landbrh., ég hefði haldið að þetta eftirlit hafi kostað meira. Ég er efins um að þeir sem veiðiréttinn eiga og fara með verndun svæðanna og eftirlitið við árnar hafi burði til þess að stunda þetta eftirlit eins og þörf er á þannig að ég er efins um þetta atriði.
    Ég á nú sæti í landbn. og við munum sjálfsagt kalla menn fyrir nefndina og fara yfir ýmis þau nýmæli sem hér koma fram og breytingar sem hér eru lagðar til þannig að ég ætla ekki að tefja tímann. En ég tek undir það að ég held að það sé mikilvægt að þetta frv. fái framgang á þessu þingi og verði að lögum í vor.